Samtök ferðaþjónustunnar og Samtök verslunar og þjónustu boða til sameiginlegs félagsfundar um nýja Evrópureglugerð um persónuvernd þriðjudaginn 5. desember kl. 8.30 – 10.00 í Kviku, Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35. Boðið verður upp létta morgunhressingu frá kl. 8.15.

Á næsta ári munu koma til framkvæmda umfangsmestu breytingar sem gerðar hafa verið á evrópskri persónuverndarlöggjöf í rúm 20 ár og fyrir þann tíma þurfa fyrirtæki að aðlaga starfsemi sína að breyttum – og auknum – kröfum til persónuverndar og öryggis persónuupplýsinga. Á fundinum munu Hörður Helgi Helgason lögmaður hjá Landslögum, en hann var settur forstjóri Persónuverndar 2013-2014, og Lárus M. K. Ólafsson, lögmaður SAF og SVÞ, fjalla um boðaðar breytingar.

Hverju breyta nýjar persónuverndarreglur í raun?
Hörður Helgi Helgason fer yfir nýja reglugerð ESB um persónuvernd sem tekur gildi í Evrópu vorið 2018. Mikið hefur verið fjallað um ný og breytt ákvæði í reglugerðinni, en hverju breyta reglurnar í raun fyrir verslunar- og þjónustufyrirtæki, þar á meðal fyrir ferðaþjónustuna?

 Undirbúningur vegna nýrrar Evrópureglugerðar um persónuvernd
Lárus M. K. Ólafsson kynnir gátlista fyrir fyrirtæki, sem birtur verður á vettvangi SAF og SVÞ, um þau atriði sem vert er að taka til skoðunar vegna boðaðra breytinga sem taka mun gildi með nýjum persónuverndarreglum.

Þeir sem ekki hafa tök á að mæta á fundinn geta fylgst með honum í beinni útsendingu á heimasíðum SAF og SVÞ.

Skráning á fundinn fer fram HÉR.