SVÞ í samvinnu við verkfræðistofuna Mannvit stóð nýlega fyrir fundi um myglu í húsnæði þar sem varpað var ljósi á hvaða áhrif þetta fyrirbæri hefur á líðan og heilsu fólks sem býr eða starfar í húsnæði þar sem mygla er eða grunur hefur komið upp um myglu. Á fundinum var einnig tekið fyrir það mikilvæga viðfangsefni, hvernig réttarstöðu aðila er háttað þegar slíkar aðstæður skapast í húsnæði. Frummælendur á fundinum voru þau María Ingibjörg Gunnbjörnsdóttir, lungna- og ofnæmislæknir á Landspítalanum, Kristján Guðlaugsson og Anna Dagbjört Ívarsdóttir, verkfræðingar hjá Mannviti og Othar Örn Petersen, lögmaður á Logos. Tilgangur fundarins var fyrst og fremst að varpa ljósi á þessi atriði og hvernig samspili þeirra væri háttað.

Það kom m.a. fram hjá Maríu Ingibjörgu að stórar faraldsfræðilegar rannsóknir sem gerðar hafa verið sýni fram á hærri tíðni astma og öndunarfærasjúkdómaeinkenna hjá þeim sem búa í rakaskemmdu húsnæði. Það vantaði hins vegar upp á að nægjanlegar rannsóknir væru til staðar til að sýna með óyggjandi hætti fram á bein orsakatengsl.

Alma Dagbjört fjallaði í erindi sínu um hina marga samverkandi þætti sem koma saman í vinnuumhverfi og benti á að innivist væri mjög margþætt hugtak sem fjalli m.a. um bygginguna sjálfa, loftgæði, hljóðvist og lýsingu.

Othar Örn fjallaði um réttarstöðu aðila út frá gallahugtakinu í lögum um fasteignakaup. Reifaði Othar nokkra dóma sem gengið hafa, þar sem reynt hefur á þetta álitaefni. Þar kom einkum fram að sönnunarbyrðin fyrir því að mygla hafi verið til staðar við afhendingu húsnæðis hvílir á kaupanda/leigjanda húsæðis. Þá kom einnig fram að dómstólar gera ríkar kröfu til þess að fyrir liggi matsgerð dómkvaddra matsmanna áður en mál koma fyrir dóm. Ekki er því nægjanlegt að hafa eingöngu sérfróða meðdómsmenn í dómi.

Það var markmið þeirra sem stóðu að fundinum að skýra og styrkja það ferli sem fer í gang þegar upp kemur grunur um myglu eða rakaskemmdir í húsnæði. Helstu hagsmunaðilar á þessu sviði hafa þegar lýst yfir vilja til þess að hefja slíka vinnu. Þar er stefnt að því að byggja á áralangri vinnu sem Þjóðverjar hafa lagt í. Vonandi hefst þessi vinna sem allra fyrst þannig að okkur takist að eyða þeirri óvissu sem uppi hefur verið undanfarin ár þegar þessi staða hefur komið upp í húsnæði.