Eins og öllum er í fersku minni komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu með dómi sínum þann 11. október s.l. að innflutningstakmarkanir á fersku kjöti feli í sér brot á EES – skuldbindingum íslenska ríkisins og séu því ólögmætar. Þar með var komin endanleg niðurstaða fyrir dómstólum á baráttu SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu sem staðið hafði í rúmlega sjö ár.

Þrátt fyrir þessa skýru niðurstöðu Hæstaréttar er ekki að merkja að neinn asi sé á stjórnvöldum og Alþingi að bregðast við og breyta íslenskri löggjöf til samræmis við niðurstöðu dómsins og þjóðréttarlegar skuldbindingar ríkisins. Samkvæmt fréttatilkynningu sem atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið sendi frá sér sama dag og dómurinn gekk, er stefnt að því að mæla fyrir slíku frumvarpi á Alþingi í febrúar n.k.

Á meðan heldur hið ólögmæta ástand áfram að vara, með tilheyrandi kostnaði fyrir ríkissjóð og skattgreiðendur. Í gær kom fyrsta sendingin af fersku kjöti til landsins, eftir að niðurstaða Hæstaréttar lá fyrir. Um var að ræða ferskt lífrænt ræktað nautakjöt frá Hollandi, sem hafði meðferðis öll tilskilin vottorð frá þar til bærum þarlendum yfirvöldum. Matvælastofnun heimilaði ekki innflutning kjötsins, þar sem það hafði ekki verði geymt í frysti í 30 daga, eins og gildandi lög gera kröfu um. Sem afleiðing þessa á innflytjandi kjötsins skýlausa bótakröfu á hendur ríkissjóði.

Hið ólögmæta ástand varir því áfram með tilheyrandi tjóni fyrir íslenska neytendur og bótaábyrgð fyrir ríkissjóð, til viðbótar við þann gífurlega kostnað sem hefur fallið á ríkið að viðhalda núverandi ástandi. SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu skora á stjórnvöld að bregðast nú hratt við og gera nauðsynlegar breytingar á löggjöfinni til að forða megi enn frekara tjóni fyrir alla aðila þessa máls.

Í þessu sambandi er nauðsynlegt að benda á að samkvæmt tölfræðigögnum frá Hagstofu Íslands hafa verið flutt út 245 tonn af fersku og ófrystu íslensku lambakjöti á s.l. tólf mánuðum án athugasemda erlendra yfirvalda. Með hliðsjón af rökum hérlendra stjórnvalda hvað varðar frystiskyldu, er því full þörf á að skoða hvaða áhrif einangrun íslenskra búfjárstofna kann að hafa fyrir erlenda neytendur.