Aðalfundur Sjálfstæðra skóla fór fram 3. apríl síðastliðinn. Að fundi loknum héldu samtökin upp á tímamót – 20 ár liðin frá stofnun samtakanna. Í tilefni dagsins var litið um öxl og farið yfir vegferðina fram að deginum í dag.
Margrét Pála Ólafsdóttir, Margrét Theódórsdóttir og Lovísa Hallgrímsdóttir, sem skipuðu fyrstu stjórn Sjálfstæðra skóla, rifjuðu upp upphafsárin og sögðu frá þeirri hugsjón og eldmóði sem lagði grunn að starfi samtakanna.
Villi Naglbítur lét gleðina ráða för með söng og gamanmálum sem vöktu hlátur og góðar undirtektir. Þá heilsaði Steinn Jóhannsson, nýr sviðsstjóri Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, gestum og færði samtökunum velfarnaðaróskir.
Að lokinni dagskrá nutu félagsmenn samverunnar yfir góðum veitingum, veigum og ánægjulegum samræðum.