Blaðagrein birt í Morgunblaðinu 21.5.2016
Höfundar: Dr. Stefán E. Matthíasson, formaður Samtaka heilbrigðisfyrirtækja og Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu 

Á vefsíðu Embættis Landlæknis (EL) birti Birgir Jakobsson nýverið áskorun til heilbrigðisráðherra um tafarlausar úrbætur í heilbrigðismálum. Látið er í veðri vaka að heilbrigðiskerfið sé á vonarvöl og helsta ástæða þess sé að íslenskir læknar komi ekki heim til Íslands til vinnu á Landspítalanum. Það er erfitt að taka undir fyrri fullyrðinguna, enda þótt vissulega megi margt betur fara, en þá síðari mögulega auðveldara, en af allt öðrum ástæðum en Birgir virðist gera sér grein fyrir eða vilji horfast í augu við.

Af greininni er ljóst að honum er einstaklega í nöp við um 350 sérfræðilækna sem standa á eigin fótum og reka eigin heilbrigðisfyrirtæki skv. samningi við Sjúkratryggingar Íslands (SÍ). Kallar þetta í niðurlægingatón „einyrkjastarf sérfræðinga„. Sem þar að auki séu ekki „… í stakk búin til að takast á við vandamál sjúklinga..“. Þetta er ekki nýtt, enda vart formlega búin að taka við embættinu þegar hann var þá þegar búinn að úthúða starfsemi þeirra. Hafði furðuleg rök í frammi, þ.e. að þeim fjármunum, sem samningur SÍ og sjálfstætt starfandi lækna veitti til heilbrigðisþjónustunnar höfnuðu í „hít“ sem tæki fé frá annarri mun verðugri en fjársveltri heilbrigðisþjónustu. Þá helst Landspítalanum. Bætti og um betur með því að fullyrða að enginn vissi í hvað þessi peningar færu. Þessa skoðun sína hefur hann reyndar margítrekað síðan. En lesendum til upplýsingar þá fóru 157 milljarðar af opinberu fé til heilbrigðismála á sl. ári. Þar af runnu á um 5% þeirrar upphæðar til fjármögnunar á umræddum samningi SÍ. Fyrir þessa fjárhæð fékk kaupandi þjónustunnar (SÍ) um 470 þúsund læknisviðtöl ýmissa sérhæfðra sérfræðinga (um 30% allra koma til lækna á landinu það árið), 15-18.000 skurðaðgerðir af ýmsu tagi, nokkur þúsund maga- og ristilspeglanir, 76  þúsund rannsóknir af ýmsu tagi, 63 þúsund myndgreiningarrannsóknir ofl, ofl. Allt þetta er samviskusamlega skráð, kostnaðargreint og árlega sent frá SÍ til EL því til upplýsingar og til að gera EL eftirlitsskyldu sína skv. lögum mögulega.

Dettur einhverjum í hug að kaup ríkisins á ofangreindri sérfræðiþjónustu raski tilveru eða rekstri Landspítalans?  Allar þessar upplýsingar voru því innanbúðar hjá Birgi frá fyrsta starfsdegi hans og fyrr. Það er óumdeilt, ef menn hafa kynnt sér málin, að sú þjónusta sem ríkið hefur keypt af fyrirtækjum sjálfstætt starfandi lækna er í senn skilvirk og ódýr. Öll töluleg rök tala sama máli, bara ef menn lesa það sem að þeim er rétt. Bæði ef horft er til nágrannalandanna og hér innanlands. En mögulega er eitt af fótakeflum þessarar þjónustu hversu skilvirk og ódýr þjónustan er í samanburði við sambærilega opinbera þjónustu. Samanburðurinn er víða afar fróðlegur svo ekki sé meira sagt.

Bráða patentlausnir Birgis á vanda heilbrigðiskerfisins eru í fimm liðum:

•    Landspítalinn verður að fá skýr fyrirmæli um að sérfræðingar verði framvegis einungis ráðnir í fullar stöður.
•    Stefna verður að því að vaktabyrði sérfræðinga sé ekki meiri en 3–4 vaktir á mánuði.
•    Setja verður reglur um aukastörf lækna og annars heilbrigðisstarfsfólks.
•    Jafnframt verður LSH að fá fyrirmæli um að auka dag- og göngudeildarstarfsemi spítalans svo að hægt sé að auka aðgengi sjúklinga með króníska sjúkdóma að þjónustu, hvort sem þeir hafa legið inni á spítalanum eða ekki.
•    Segja verður upp samningi Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) við samtök lækna og setja reglur um það að SÍ geri framvegis aðeins samninga við heilbrigðisfyrirtæki (opinber eða einkarekin) sem vinni samkvæmt ákveðinni kröfulýsingu og veiti þjónustu sem ríkið (greiðandinn) sér þörf fyrir.“

Hryggjarstykkið í tillögunum virðist að takmarka atvinnufrelsi lækna. Þvinga hámenntaða sérfræðinga til að vinna á einum vinnustað í fullu starfi og takmarka starfsemi sjálftætt starfandi lækna enda látið að því liggja að hennar sé ekki þörf.
Birgi virðist algerlega sjást yfir þá staðreynd að vandi Landspítalans er ekki starfsemi sjálfstætt starfandi lækna. Landspítalinn gæti hvort eð er aldrei undir nokkrum kringumstæðum tekið við þeirri starfsemi eða fjármagnað hana á þeim framlögum sem til hennar fara í dag af gjaldaliðum SÍ. Kraftaverk dygði ekki til. Vandi Landspítalans nær dýpra og lengra aftur í tímann sem aðlaðandi vinnustaður. Er ekki endilega skortur á nýjum byggingum eins og sumir telja sér og öðrum trú um. Vissulega skortur á tækjum nútímans. Vanda sem vanræktur hefur verið, en nú er verið að taka á. Mesta ógnin er mögulega stofnunin sjálf, stjórnendur hennar og sú fákeppni sem er á sjúkrahúsmarkaði.

Birgi hefur verið bent á þá staðreynd að stjórnendur stofnunarinnar brjóta lög um ráðningar lækna án þess að blikna. Ráða ekki hæfasta umsækjandann og eyða tugum milljóna af skattfé í málsóknir til að losa sig við eða hindra að viðkomandi fái starf á stofnuninni. Birgir hefur kært sig kollóttan yfir þessari staðreynd þrátt fyrir að vera lögbundinn eftirlitsaðili með starfseminni. Hvarflar það að Birgi að  þetta fæli lækna frá því að sækja um starf á Landspítalanum?
Minni á að fyrir 14 árum voru 4 sjúkrahús á höfuðborgarsvæðinu. Ekki alveg vandræðalaust, en það gaf möguleika til valfrelsis sjúklinga og ekki síst heilbrigðisstarfsmanna til vinnuveitanda.  Það er áhyggjuefni fyrir hönd sjúklinga og ekki síst verðandi starfsmanna hvernig Landspítalinn hefur haldið á málum sínum. Fjölbreytileiki í veitingu heilbrigðisþjónustu og valfrelsi sjúklinga til þjónustuveitenda er forsenda fyrir því að skapa góða heilbrigðisþjónustu sem sátt er um. Fákeppni í heilbrigðisþjónustu er engum til framdráttar.

Mannauðurinn er helsta verðmæti heilbrigðisþjónustunnar, sem er fyrst og fremst þekkingariðnaður. En valfrelsi til vinnuveitanda og mismunandi rekstarforma er lykilatriði, hvort sem er í spítalaþjónustu, heilsugæslu eða sérfræðiþjónustu. Ekki dugir að hengja bakara fyrir smið í þessu efni.

Blaðagreinin í Morgunblaðinu á pdf sniði.
Slóð inn á vefsíðu Samtaka heilbrigðisfyrirtækja.