Þjófnaður úr verslunum hefur aukist verulega á undanförnum misserum. Langstærsti hluti þjófnaða tengist skipulagðri brotastarfsemi, sem hefur valdið verslunum landsins miklu fjárhagslegu tjóni.
Ásta Sigríður Fjeldsted, forstjóri Festi, greinir frá því í Viðskiptablaðinu 25.júní sl., að öryggishlið, myndavélar, aukinn mannskapur sem sinnir eftirliti og kærur til lögreglu séu meðal aðgerða sem Krónan hefur gripið til. „Þjófnaður í verslunum er því miður viðvarandi vandi og virðist sem þetta sé frekar að færast í aukana en hitt, þrátt fyrir öflugt og sýnilegt eftirlit,“ segir Ásta ma.í viðtalinu.
Samkvæmt sömu grein í Viðskiptablaðinu er óútskýrð rýrnun í matvöruverslunum metin á 2,5 til 3,8 milljarða króna á ári og nær þessi upphæð upp í 6 til 8 milljarða þegar öll smásala er tekin með í reikninginn . Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, bendir á að stór hluti tjónsins sé vegna skipulagðrar brotastarfsemi og kallar eftir meiri eftirfylgni ákæruvaldsins. Hann telur að lítil eftirfylgni leiði til þess að varnaðaráhrif séu lítil sem engin, og brotamenn komist upp með athæfi sitt .
Finnur Oddsson, forstjóri Haga, tekur í sama streng og segir að „rýrnun vegna þjófnaðar sé hluti af rekstrarkostnaði sem endi á viðskiptavinum í formi hærra vöruverðs“. Hann bætir við að „Hagar hafi einnig aukið eftirlit og gripið til annarra mótvægisaðgerða“.
Sérstök umfjöllun á fréttatíma RÚV í gærkveldi.
Þar lýsti Pétur Alan Guðmundsson, eigandi Melabúðarinnar, yfir óánægju með eftirlit lögreglu og kallar eftir hraðari og skilvirkari vinnubrögðum. Hann segir þjófa af öllum gerðum, frá börnum til eldri borgara, og telur það nauðsynlegt að lögreglan hafi betri tæki og kerfi til að takast á við þessi brot og tók Benedikt S. Benediktsson, lögfræðingur og næsti framkvæmdastjóri SVÞ, undir þau orð og bætti við að verslanir væru margar hverjar að innleiða nýja tækni með aðstoð gervigreindar til að stöðva þjófnað í verslunum.
SVÞ hafa unnið með lögreglunni að þróun nýs samskiptakerfis til að bæta viðbragðstíma við afbrotum í verslunum. Þetta kerfi, sem verið er að taka í notkun, mun bæta upplýsingaflæði milli verslana og lögreglu og tryggja hraðari viðbrögð .
Heimildir: