Fréttatilkynning send á fjölmiðla 1.2.2016
EFTA-dómstóllinn hefur skilað áliti sínu um innflutningsbann íslenska ríkisins á fersku kjöti þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að bannið samræmist á engan hátt skuldbindingum íslenska ríkisins samkvæmt samningi um Evrópska efnahagssvæðið.

Hæstiréttur hafði áður staðfest að leita skuli álits EFTA-dómstólsins á nánar tilteknum atriðum í tengslum við mál sem eitt aðildarfyrirtækja SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu, þ.e. Ferskar kjötvörur ehf., rekur gegn íslenska ríkinu vegna synjunar um að flytja til landsins ferskt kjöt frá Hollandi. Fyrirtækið stefndi íslenska ríkinu og krafist skaðabóta vegna tjóns sem það varð fyrir vegna synjunar á beiðni um heimild til að flytja til landsins ferskt nautakjöt. Synjunin grundvallaðist á innflutningsbanni sem SVÞ hafa áður kvartað undan til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) en samtökin telja að umrætt bann gangi gegn ákvæðum EES-samningsins. Eftir rannsókn sína á málinu komst ESA að sömu niðurstöðu og SVÞ að núgildandi bann varðandi innflutning á fersku kjöti frá öðrum EES-ríkjum er andstæð EES-samningnum.

Undir rekstri máls Ferskra kjötvara í héraði krafðist fyrirtækið þess að aflað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómsstólsins til að fá úr því skorið hvort íslensk löggjöf væri í samræmi við EES-samninginn og var sú krafa staðfest af Hæstarétti gegn mótmælum íslenska ríkisins.

Niðurstaða EFTA-dómstólsins er afgerandi í þessu máli þar sem segir m.a. að samrýmist ekki EES-löggjöf að ríki, sem aðild á að EES-samningnum, setji reglur, þar sem þess er krafist, að innflytjandi hrárrar kjötvöru sæki um sérstakt leyfi áður en varan er flutt inn, og áskilji að lagt sé fram vottorð um að kjötið hafi verið geymt frosið í tiltekinn tíma fyrir tollafgreiðslu. Þá er með öllu hafnað þeim röksemdum íslenska ríkisins um að taka beri tillit til einangraðar landfræðilegrar legu Íslands og ónæmisfræðilegs varnarleysis dýraflóru landsins og hugsanlegra afleiðinga á líf og heilsu manna, við skýringu EES-löggjafar. Í því samhengi verður að hafa hugfast að Ísland fullyrti að það beri fullt traust til dýraheilbrigðiseftirlits sem fram fer í öðrum aðildarríkjum í samræmi við sameiginlegar EES-reglur.

SVÞ fagna þessum áfanga í málinu enda er það staðföst trú samtakanna að núverandi innflutningsbann á fersku kjöti frá EES-ríkjum gangi gegn ákvæðum EES-samningsins og samningsskuldbindingum íslenska ríkisins líkt og ESA hefur áður komist að og staðfest er í niðurstöðu EFTA-dómstólsins. Er það krafa SVÞ að innflutningur á fersku kjöti, sem unnið er í samræmi við samevrópskar kröfur og undir eftirliti annarra EES-ríkja, verði heimilaður hér á landi í samræmi við EES-löggjöf.

Fréttatilkynning til útprentunar.

Niðurstaða EFTA-dómstólsins.