Fundaröð Litla Íslands um farsælan rekstur lítilla fyrirtækja er nú í fullum gangi en næsti fundur er nk. föstudag 3. júní og fjallar um starfsmenn og markmið.

Ingunn Björk Vilhjálmsdóttir, MBA, atvinnufélagsfræðingur, ráðgjafi og eigandi hjá Attentus ræðir um réttu skrefin fyrir stjórnendur í átt að stefnumiðaðri mannauðsstjórnun og tengingu við góðan rekstrarárangur. Farið verður yfir helstu tól og tæki stjórnandans í mannauðsmálum.

Símon Þorleifsson rekstrarverkfræðingur og ráðgjafi í viðskiptagreind og árangursstjórnun hjá Capacent fjallar um markmiðasetningu sem byggir á framtíðarsýn stjórnenda og eigenda. Lögð er áhersla á að markmið séu skýr, hnitmiðuð og styðji við sýn stjórnenda um framtíð fyrirtækisins. Sýnd verða nokkur dæmi um markmið og hvernig fljótlegast er að setja fram markmið og viðeigandi mælikvarða ásamt dæmum um aðgerðir til að ná framúrskarandi árangri.

Að loknum erindum gefst góður tími til að spjalla og spyrja spurninga en fundurinn fer fram í Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35, í salnum Kviku á 1. hæð. Allir framtakssamir velkomnir á meðan húsrúm leyfir en vinsamlegast skráið þátttöku hér að neðan. Kaffi, te og með því frá kl. 8.15.

Grunnurinn að góðum rekstri er sterkur rekstrargrunnur. Nokkrir lykilþættir einkenna fyrirtæki með sterkan rekstrargrunn og er farið yfir þá í fundaröðinni sem lýkur föstudaginn 10. júní.  Þá verður fjallað um samninga í fyrirtækjarekstri og skipulag, ákvarðanir og eftirfylgni í daglegum störfum.

Nánar um fundaröðina og skráning.

Samtök atvinnulífsins og aðildarsamtök SA eru bakhjarlar Litla Íslands.