Mikil ánægja var með félagsfund sem haldinn var miðvikudaginn 13. nóvember sl. um sjálfbærni. Á fundinum héldu erindi þær Eva Magnúsdóttir, ráðgjafi og eigandi Podium og Viktoría Valdimarsdóttir, ráðgjafi og eigandi Ábyrgra lausna. Að auki fengum við innsýn í þá sjálfbærnivinnu sem í gangi er hjá þremur aðildarfyrirtækjum SVÞ, með erindum frá Ásdísi Björg Jónsdóttur, deildarstjóra samfélagsábyrgðar og gæðamála hjá Festi, Sigurði Pálssyni, forstjóra Byko og Málfríði Guðný Kolbeinsdóttur, sérfræðings í umbótastjórnun hjá Ölgerðinni.

Eva veitti m.a. innsýn í viðhorf aldamótakynslóðarinnar, en fólk af þeirri kynslóð leggur mikla áherslu á að skipta við ábyrg fyrirtæki. Einnig fór hún yfir rannsóknir sem sýndu mikilvægi jákvæðrar samfélagslegrar ímyndar og áhrif hennar á á viðhorf neytenda til fyrirtækja. Mikill meirihluti neytenda vilja skipta við ábyrg fyrirtæki og stór hluti þeirra myndi hætta viðskiptum við fyrirtæki verði þau uppvís að óábyrgum viðskiptaháttum. Eva fjallaði jafnframt um áhrif samfélagslegrar ábyrgðar fyrirtækja á fjárhagslegt gengi þeirra, sölu og framtíðarhorfur og tók dæmi frá heimsþekktum fyrirtækjum á borð við Rolex, Lego og Unilever þar sem samfélagsleg ábyrgð hefur verið höfð í hávegum. Eva sýndi mjög áhugaverðar tölur um fjárhagslegan ávinning af umhverfisumbótum innlendra sem erlendra fyrirtækja.

Viktoría fjallaði um breytingar í rekstrarumhverfi fyrirtækja og upplýsingagjöf. Hún fór yfir innleiðingu á tilskipun Evrópusambandsins (ESB 2014/95) um ófjárhagslega þætti þar sem ákveðnum fyrirtækjum er gert skylt að greina frá viðskiptalíkani og lykilmælikvöðrum er lúta að umhverfi og samfélagi samhlið fjárhagslegum upplýsingum. Hún fór yfir hina ýmsu alþjóða staðla og viðmið sem notuð eru þegar kemur að þessum málum og lagði áherslu á traustar upplýsingar sem byggðar eru á gagnsæju umhverfis- og samfélagsbókhaldi . Einnig lagði hún áherslu á að fyrirtæki skoði öll markmið Sameinuðu þjóðanna, heimsmarkmiðin, framkvæmi mikilvægisgreiningu við val á áherslumarkmiðum, forðist svokallaða kirsuberjatínslu (e. cherry picking) og greini frá jákvæðum og neikvæðum áhrifum en ekki einungis frá markmiðum sem líta vel út í skýrslu. Hún fjallaði um orðsporsáhættu og samfélagslegt rekstrarleyfi (e. social licence to oporate) sem horfið getur á einni nóttu starfi fyrirtæki ekki heiðarlega. Að lokum lagði hún áherslu á ávinning af innleiðingu við sjálfbærniskýrslugerð með traustum upplýsingum, sem getur m.a. falist í markaðsforskoti, virðisauk og lámörkun áhættu.

Það var einnig mjög áhugavert að fá innsýn í sjálfbærnivinnu Festi, Byko og Ölgerðarinnar. Fyrir áhugsama má kynna sér það sem þessi fyrirtæki eru að gera í sjálfbærni og samfélagslegri ábyrgð á vefsíðum þeirra:

N1: https://www.n1.is/um-n1/samfelagsleg-abyrgd/

Byko: https://www.byko.is/umhverfismal

Ölgerðin: http://www.olgerdin.is/um-olgerdina/samfelagsabyrgd

Á myndinni f.v.: Málfríður Guðný Kolbeinsdóttir frá Ögerðinni, Sigurður Pálsson frá Byko, Ásdís Björg Jónsdóttirfrá Festi, Viktoría Valdimarsdóttir frá Ábyrgum lausnum,  Eva Magnúsdóttir frá Podium, og Fanney Karlsdóttir, fundarstjóri og skrifstofustjóri Umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs.