Samkeppniseftirlitið leggur mat á hvort tilefni sé til rannsóknar á athöfnum einkaaðila og opinberra á markaði fyrir rafrænar sjúkraskrár og tengdar lausnir.
Hinn 12. desember sl. sendi Samkeppniseftirlitið einu einkafyrirtæki og nokkrum opinberum aðilum bréf þar sem óskað var eftir upplýsingum, viðbrögðum og athugasemdum svo stofnunin gæti tekið ákvörðun um hvort ástæða sé til rannsóknar á markaði fyrir rafrænar sjúkraskrár og tengdar lausnir.
Ástæðan er erindi SVÞ til Samkeppniseftirlitsins f.h. aðildarfyrirtækis samtakanna, Skræðu ehf., þar sem vakin var athygli á hegðun Origo á markaðnum og ákvarðanatöku á vettvangi hins opinbera.
Í júlí 2011 taldi Samkeppniseftirlitið sterkar vísbendingar um að Origo væri ráðandi á markaðnum. Í því ljósi hvatti stofnunin tiltekna opinbera aðila í heilbrigðisþjónustu til að huga sérstaklega að þeirri stöðu við innkaup á þjónustu.
SVÞ telur tilefni til að vekja sérstaka athygli á að af svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá 10. þingmanni Suðurkjördæmis (þskj. nr. 1615 og 1616 á 149. löggjafarþingi) verður ráðið að verulegu opinberu fé hafi verið ráðstafað til framþróunar og viðhalds á hugbúnaðarkerfunum sem eru í eigu markaðsráðandi aðilans, Origo. Í bréfum Samkeppniseftirlitsins frá 12. desember sl. kemur jafnframt fram að sterkar líkur séu á að hvatning Landspítala til heilbrigðisfyrirtækja þess efnis að taka upp sjúkraskrárkerfið Sögu muni raska samkeppni á markaðnum.
SVÞ, Samtök heilbrigðisfyrirtækja, sem starfa innan vébanda SVÞ, og fleiri samtök í heilbrigðisþjónustu hafa lýst verulegum áhyggjum af innkaupum hins opinbera á heilbrigðisþjónustu eins og fram kom í haust. SVÞ munu eftir sem áður standa við bakið á aðildarfyrirtækjum samtakanna í samskiptum við hið opinbera.