SVÞ kallar eftir aðgerðum til að tryggja öryggi neytenda og jafnan grundvöll samkeppni
Í frétt á Vísir , frá 11. maí sl., er sagt frá áhyggjum íslenskra stjórnvalda kaupa neytenda á vörum frá kínversku netrisunum Temu og Shein. Af þessu tilefni vilja SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu leggja áherslu á mikilvægi neytendaverndar og jafnan grundvöll samkeppni.
Úrtaksrannsóknir hafa gefið til kynna að allt að 70% af vörum sem seldar eru á þessum síðum geti innihaldið skaðleg efni sem eru bönnuð á EES-svæðinu.
„Við höfum áhyggjur af því að íslenskir neytendur setji sig í hættu“ segir Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ og bætir við „Þetta snýst hins vegar ekki aðeins um neytendavernd heldur einnig um stöðu íslenskrar verslunar sem þarf ávallt að ganga úr skugga um að þær vörur sem hér eru seldar uppfylli settar kröfur og sætir innlendu eftirliti.“
SVÞ hefur á síðastliðnu ári átt samstarf við norræn systursamtök á vettvangi EuroCommerce þar sem þrýst hefur verið á að sömu kröfur séu sannarlega gerðar til allra sem selja evrópskum neytendum vörur. Það er bæði versluninni og neytendum til hagsbóta að traust ríki, neytendur njóti þess öryggis sem ætlunin er að tryggja og að jöfn samkeppni ríki á markaði.
SVÞ fylgist náið með þróun mála. „Neytendur velja við hverja þeir eiga viðskipti. Það eru þeirra hagsmunir að eiga viðskipti við söluaðila sem fylgja settum reglum.“ bætir Benedikt við. “Ef skaði hlýst af notkun vöru getur neytandinn verið ansi berskjaldaður í viðskiptum við söluaðila í fjarlægum heimshluta þar sem jafnvel gilda allt aðrar reglur um ábyrgð þeirra á tjóni en hér tíðkast”.