Fyrirspurn sem Bergþór Ólason þingmaður Miðflokksins lagði fram á Alþingi í júní hefur vakið nokkra athygli í atvinnulífinu. Þar er leitað svara við því hvort íslensk stjórnvöld hafi gengið lengra en tilskipun Evrópusambandsins gerir ráð fyrir þegar ákveðið var hvaða fyrirtæki skuli sæta sérstöku eftirliti vegna aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
Göngum lengra en tilskipunin
Tilefni fyrirspurnarinnar er meðal annars umræða sem skapaðist eftir umfjöllun í Morgunblaðinu í maí, þar sem fjallað var um svokallaða gullhúðun íslensks regluverks á þessu sviði. Þar var því haldið fram að hér á landi væri eftirlit og tilkynningaskylda látin ná til fleiri aðila en kveðið sé á um í Evróputilskipuninni sem liggur til grundvallar lögum nr. 140/2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
Bent hefur verið á að fyrirspurn Bergþórs snúi meðal annars að stöðu fasteignafélaga, sem hér á landi eru tilkynningaskyld en ekki eru nefnd sérstaklega í Evróputilskipuninni. Þar kemur fram að tilkynningaskylda nái til fasteignasala og lögfræðinga þegar þeir koma að afmörkuðum þáttum fasteignaviðskipta, auk annarra tilgreindra aðila sem sinna tilteknum fjármála- og viðskiptalegum þjónustuverkefnum. Sama virðist eiga við þegar kemur að endurskoðendum og bókurum.
Fasteignafélögum bætt við
Við meðferð breytingalaga árið 2020 var ákvæði um fasteignafélög ekki hluti af frumvarpinu í upphafi, heldur var þeim bætt við að tillögu meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis. Sú breyting var rökstudd með vísan til reynslu af framkvæmd laganna og umsagnar Skattsins, sem hefur eftirlit með þeim.
Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ), segir í samtali við Morgunblaðið áhyggjur hafa komið fram meðal fjölmargra fyrirtækja sem hafa þurft að ráðast í viðamiklar og kostnaðarsamar aðgerðir til að mæta settum kröfum á grundvelli regluverks sem hafi verið útvíkkað hér á landi umfram það sem tilskipunin krefst.
Vald framselt til eftirlitsaðila
Hann segir óljóst hvers vegna svo langt hafi verið gengið þegar það virðist hafa verið óþarft. Benedikt nefnir jafnframt að eftirgrennslan samtakanna hafi gefið til kynna að ákvörðunarvald um hvaða starfsemi og í hvaða umfangi væri hér tilkynningaskyld og sætti ströngu eftirliti hefði í raun verið framselt til eftirlitsaðila og ríkislögreglustjóra.
Að mati Benedikts virðist sem tiltölulega almenn aðvörunarorð í áhættumati ríkislögreglustjóra hafi leitt til þess að tiltekin starfsemi eða starfsgreinar hafi í heild sinni verið felldar undir regluverkið. Gaumgæfni eða viðspyrna á vettvangi Alþingis virðist hafa verið afar takmörkuð og lítið mat hafi verið lagt á áhrifin á þá starfsemi sem var undir hverju sinni.
Skatturinn og Seðlabanki Íslands hafa hins vegar áður vísað til þess að útvíkkanir á regluverkinu hafi verið byggðar á reynslu og því markmiði að tryggja að eftirlit nái til þeirra sviða þar sem hætta á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka sé talin mest.
Viðskiptablað Morgunblaðsins, 8. júlí 2025.