Menntaverðlaun atvinnulífsins verða afhent í Hörpu þriðjudaginn 14. febrúar 2023. Óskað er eftir tilnefningum um fyrirtæki sem hafa staðið sig vel á sviði fræðslu- og menntamála. Fyrirtækjum er velkomið að tilnefna sig sjálf. Einungis skráðir aðildarfélagar SA eru gildir með tilnefningu.

Tilnefningar sendist í tölvupósti til Samtaka atvinnulífsins á verdlaun@sa.is, eigi síðar en mánudaginn 23. janúar n.k.

Verðlaun eru sem fyrr veitt í tveimur flokkum;

Menntafyrirtæki ársins er valið og menntasproti ársins útnefndur, en fyrirtæki sem tilnefnd eru verða að uppfylla ákveðin viðmið.

Helstu viðmið fyrir menntafyrirtæki ársins eru:

  • að skipulögð og markviss fræðsla sé innan fyrirtækisins
  • að sem flest starfsfólk taki virkan þátt
  • að haldið sé utan um mælikvarða í fræðslumálum
  • að hvatning sé til staðar til frekari þekkingaröflunar

Helstu viðmið vegna menntasprota ársins eru:

  • að lögð sé stund á nýsköpun í menntun og fræðslu, innan fyrirtækis og/eða í samstarfi fyrirtækja
  • samstarf fyrirtækja og samfélags um eflingu fræðslu, innan sem utan fyrirtækja.

Skýr og skipulögð gögn hjálpa dómnefnd að meta tilnefningar. Vinsamlega skilið greinargerð, að hámarki þrjár A4 blaðsíður þar sem rökstutt er hvers vegna viðkomandi fyrirtæki er tilnefnt og hvernig það uppfyllir viðmiðin sem liggja til grundvallar.

Menntadagur atvinnulífsins er samstarfsverkefni SamorkuSamtaka ferðaþjónustunnarSamtaka fjármálafyrirtækjaSamtaka fyrirtækja í sjávarútvegiSamtaka iðnaðarinsSamtaka verslunar og þjónustu og Samtaka atvinnulífsins.

________________

Samkaup hlutu menntaverðlaun atvinnulífsins 2022. F.v. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, Gunnar Egill Sigurðsson, forstjóri Samkaupa, Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs Samkaupa og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.