Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu segir að umdeildar breytingar sem gerðar voru á búvörulögum í mars hafi hvorki þjónað hagsmunum bænda né neytenda. Erfiðara sé orðið fyrir matvöruverslanir að semja um hagstæð kjör frá afurðastöðvum.
Alþingi samþykkti í mars breytingar á búvörulögum sem veittu kjötafurðastöðvum undanþágu frá samkeppnislögum. Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu í gær að afgreiðsla Alþingis og meirihluta atvinnuveganefndar á málinu hefði ekki verið í samræmi við stjórnarskrá og lögin því ógild.
Ekki liggur fyrir hvaða áhrif þetta á eftir að hafa á kaup Kaupfélags Skagfirðinga á Kjarnafæði-Norðlenska en kaupin voru gerð á grundvelli þessarar undanþágu. Beðið er eftir viðbrögðum frá Samkeppniseftirlitinu vegna dómsins.
Samtök verslunar og þjónustu gagnrýndu þessar undanþágur á sínum tíma. Benedikt S. Benediktsson framkvæmdastjóri samtakanna fagnar niðurstöðu héraðsdóms.
„Niðurstaða héraðsdóms, sem er þá bindandi, hefur það í för með sér að samkeppnislögin gilda. Þessi breytingarlög sem Alþingi samþykkti í vor þau eru gufuð upp. Þannig að samkeppnislögin, eins og við skiljum þau, hafa gilt allan tímann og það er kannski bara hið eðlilega ástand,“ segir Benedikt.
Hann segir að breytingarnar hafi hvorki þjónað hagsmunum bænda né neytenda heldur fyrst og fremst afurðastöðvum. Matvöruverslanir hafi fundið fyrir því á síðustu mánuðum.
„Við heyrum frá versluninni að þar telja menn sig hafa fundið það í samskiptum við afurðastöðvar að stemningin hafi verið að breytast og erfiðara að sækja fram hagstæðara verð en ella. Að einhverju leyti telja menn sig hafa orðið þess áskynja að verðin væru að samræmast. Hvort sem að frumvarpið sem slíkt, eða lagabreyting sem slík, sé orsakavaldur í því en það er eitthvað sem við höfum heyrt,“ segir Benedikt.