Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, ræddi við þau í Reykjavík síðdegis þann 21. desember um þjófnaði úr verslunum og aðgerðaleysi lögreglu.

Lögreglan hefur gefið til kynna að þau vilji taka á vandanum og hafa stigið einhver skref í þessa átt, en Andrés segir að betur mega ef duga skal. Samtökin hafa átt fjölmarga fundi með lögreglunni og dómsmálaráðherra um þessi mál, þ.á.m. núverandi dómsmálaráðherra. Stærstur hluti vandans er af völdum fólks sem virðist koma gagngert til Íslands í þeim tilgangi að stunda þessa brotastarfsemi og fer svo gjarnan úr landi eftir 3-4 mánuði eftir að hafa jafnvel verið handtekið nokkrum sinnum. Hann segir hinsvegar að það hafi dregið úr þjófnuðum í verslunum í covid, m.a. vegna minni ferða fólks milli landa.

Andrés segir vandamálið alltaf hið sama, hvort sem er fyrir 10 árum eða í dag, vandinn virðist vera að réttarvörslukerfið hafi ekki nægjanlega burði til þess að taka á þessum málum með festu. Hann segir almennt allar stærri verslarnir kæra öll afbrot af þessu tagi til lögreglu, án undantekninga. Boltinn sé hjá lögreglunni og yfirvöldum í þessum málum og Andrés segir þau gera sér algjörlega grein fyrir vandanum, en eins og fyrri daginn sé þetta spurning um forgangsröðun og fjármál. Virkt eftirlit sé heldur ekki með fólki á landamærum og fólk geti farið á milli landa þrátt fyrir að hafa verið ákært, sem sé eitt af því sem gerir þessi mál enn erfiðari að eiga við. Það mikilvægasta sé að fólk sem hefur afbrot sem þessi í hyggju telji þau hafa alvarlegar afleiðingar, það myndi hafa sterkustu varnaðaráhrifin.

Hlusta má á viðtalið hér fyrir neðan: