Ný reglugerð Nr. 1144/2025 frá 5. nóvember 2025 um plastvörur hefur tekið gildi.   

SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu vekja sérstaka athygli á að við setningu reglugerðarinnar gætti umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Jóhann Páll Jóhannsson, íslenskra hagsmuna. 

Í stað þess að gerð yrði sú stífa krafa að ýmsar vörur sem innihalda plast, á borð við dömubindi, beri forprentaðar merkingar á íslensku ákvað ráðherra að merkingar innfluttra vara megi bera upprunalegan texta á dönsku, norsku, sænsku eða ensku. 

„Þetta er mjög jákvætt og óhætt að hrósa ráðherra fyrir framtakið. Við fögnum því að ráðherra hafi valið að fara þessa leið enda ljóst að ESB fór fram úr sér við setningu merkingarkrafna. Við berum virðingu fyrir viðhorfum þeirra sem leggja áherslu á íslenskt mál en teljum að fórnarkostnaðurinn vegna kröfunnar um íslenskar merkingar hefði orðið mikill og ósanngjarn og slík niðurstaða hefði ekki verið neinum til framdráttar.“ segir Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ. 

Í reglugerðinni er gert ráð fyrir að tilteknar einnota plastvörur – eins og blautþurrkur, drykkjarglös og tóbakssíur – eigi að vera merktar á íslensku nema í tilviki innfluttra vara, þær megi verka merktar á dönsku, norsku, sænsku eða ensku.  Það þýðir að ekki þarf að útbúa séríslenskar vörur ef fyrirliggjandi vörur uppfylla þegar merkingarkröfur í nágrannalöndunum. Fyrir vikið minnka líkur á verðhækkunum verulega og ekki verður þörf á að taka af markaði vörur þeirra framleiðenda sem ekki uppfylla merkingakröfur.  

SVÞ telur þetta gott dæmi um þegar stjórnvöld og atvinnulíf ganga í takt.