Íslensk verslun í tölum er sérsniðinn gagnagrunnur um stærð og þróun íslenskrar verslunar. Grunnurinn er sérstaklega ætlaður þeim sem reka verslanir og/eða hyggja á stofnun nýrra verslana. Hér er bæði hægt að fá greinargott yfirlit yfir ytri forsendur fyrir verslunarrekstri eins og greining á neyslu Íslendinga og innri forsendum eins og stöðu og þróun einstakra tegunda verslunar, launum, starfsmannafjölda o.s.frv. Þá er í þessum gagnagrunni lýsing á lýðfræðilegum þáttum sem hafa m.a. áhrif á staðsetningu og tegund verslana eftir landssvæðum.
Rannsóknasetur verslunarinnar hefur síðastliðinn áratug gefið út á hverju ári Árbók verslunarinnar – Hagtölur um íslenska verslun. Gagnagrunnurinn, sem hér er birtur, tekur við hlutverki Árbókarinnar með þeirri breytingu að upplýsingar birtast rafrænt og eru uppfærðar reglulega, eða jafnskjótt og nýjar opinberar hagtölur birtast. Flestar hagtölur sem byggt er á, eru unnar úr opinberum gögnum eins og frá Hagstofu Íslands en einnig er byggt á upplýsingum og samantekt Rannsóknaseturs verslunarinnar auk gagna frá hagsmunasamtökum og öðrum þeim sem taka saman gögn um stöðu og þróun verslunar. Upplýsingar úr rafrænum upplýsingakerfum uppfærast sjálfkrafa inn í gagnagrunninn sem hér er kynntur. Aðrar tölur eru ýmist uppfærðar ársfjórðungslega eða árlega þar sem það á við.