SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu, VR og Landssamband íslenskra verzlunarmanna (LÍV) hafa tekið höndum saman vegna vaxandi áhyggna af ofbeldi og áreitni gagnvart starfsfólki verslana. Í dag, 16. júní var undirritað sameiginlegt minnisblað sem markar upphaf samstarfs um þetta mikilvæga samfélagsmál.
Settur verður á laggirnar vinnuhópur skipaður fulltrúum atvinnurekenda og launafólks sem er meðal annars ætlað að draga fram áskoranir og hættur m.t.t. öryggis starfsfólks verslana. SVÞ munu tryggja aðkomu atvinnurekenda að hópnum en m.a. er ætlunin að á vettvangi hópsins verði deilt reynslu, þekkingu og viðbrögðum verslunarfyrirtækja á ólíkum sviðum.
Hlutverk hópsins er að taka saman og greina viðfangsefnið og kortleggja úrræði sem fyrirtæki hafa þegar gripið til eða gætu gripið til. Standa vonir til þess að úr verði sameiginlegar hugmyndir að viðbrögðum og góðum starfsvenjum sem auka öryggi allra í verslunum.
Ætlunin er að vinnuhópurinn ljúki störfum fyrir lok október 2025 og niðurstöður hans verða nýttar til að þróa frekara samstarf og samtal við stjórnvöld.
Nýleg könnun VR sýnir að 54% félagsmanna hafa orðið fyrir áreitni eða ofbeldi í starfi á starfsferlinum. SVÞ tekur þessar niðurstöður alvarlega og fagnar því að atvinnurekendur og launþegar sameinist um mikilvægt verkefni sem ætti styðja bæði öryggi og heilbrigt starfsumhverfi. Sjá minnisblað HÉR!
Frá undirritun samstarfssamnings milli SVÞ, VR & LÍV 16. júní 2025
Halla Gunnarsdóttir, formaður VR, Eiður Stefánsson, formaður LÍV, og Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ