Síðustu ár hefur SVÞ haldið opna ráðstefnu í tilefni af aðalfundi samtakanna sem hefur verið sótt um af 450 gestum, auk þess sem oft hefur bæst í áhorfandafjöldann í gegnum streymi og birtingu á upptökum. Fyrirhugað var að halda slíka ráðstefnu næstkomandi fimmtudag, 12. mars á Hilton Nordica og hafði skráning gengið mjög vel þar til í síðustu viku, og stefndi í aðsóknarmet. 

Eins og alþjóð veit hefur kórónaveiran haft gríðarleg áhrif um allan heim og ein birtingarmynd þess er að þó ekki sé búið að setja á samkomubann hérlendis hafa fjölmargir aðilar aflýst samkomum og viðburðum síðustu daga. SVÞ hefur einnig tekið þá ákvörðun að sýna ábyrgð í verki en þó ekki með því að aflýsa ráðstefnunni, heldur breyta fyrirkomulagi hennar. Það er við hæfi að ráðstefna um stafræna tækni og nýtt hugarfar sé jú haldin á stafrænan hátt – í gegnum netið. Hvernig er betra að sýna í verki hvernig stafræn tækni getur gert margt gott fyrir atvinnulífið og samfélagið okkar allt en með því að leyfa henni að gera okkur kleift að halda okkar striki og fræða íslenskt atvinnulíf og stuðla að frekari framþróun þess – lífið heldur jú áfram. 

Aðalræðumaður dagsins verður umbreytinga- og framtíðarfræðingurinn Nick Jankel. Nick hefur verið ráðgjafi m.a. hjá Hvíta húsinu og No. 10 Downing Street, auk þess að hafa unnið með fjölda stórfyrirtækja að menningar- og breytingastjórnun og markaðsmálum. Hann hefur kennt við Yale, Oxford og London Business School, haldið fyrirlestra víðsvegar og verið fjallað um hann hjá miðlum á borð við The Times, The Financial Times, The Sunday Times og The Guardian. 

Við fáum einnig innsýn í reynslu Kringlunnar, Já og Póstsins af þeim áskorunum sem felast í starfrænni umbreytingu og hvernig þau skapa fyrirtæki til framtíðar. 

Jón Ólafur Halldórsson, formaður SVÞ og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar mun opna ráðstefnuna. Andri Heiðar Kristinsson, nýr Stafrænn leiðtogi ríkisstjórnarinnar mun stýra spurningum til Nick og annarra ræðumanna. 

Ráðstefnan fer fram 12. mars kl. 14:00-17:00* í tölvum, spjaldtölvum eða snjallsímum þátttakenda en skráning fer fram hér á vef SVÞ: https://svth.is/radstefna-2020/ 

*vinsamlegast athugið  verið er  aðlaga dagskrána  nýju fyrirkomulagi og líklegt er  hún muni styttast.