Í drögum að reglugerð kemur fram að merkja eigi umbúðir tiltekinna vara þannig að það sé skýrt að þær innihaldi plast. Þessi krafa kemur frá ESB. Efnislega gerir ESB þá kröfu að merkingarnar séu á íslensku og ekki nægi að þær séu á ensku eða öðru norðurlandamáli.
SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu telja að vegna kröfunnar muni innflutningverð varanna hækka og hætt sé við að vöruúrval kunni að dragast saman. Ef það raungerist er hætt við að staðan geri hag íslenskra neytenda lakari.
SVÞ skiluðu umsögn um drögin, ásamt Samtökum atvinnulífsins þar sem athygli er vakin á hversu harkalega þessi krafa kemur niður á Íslandi, samanborið við fjölmennari málsvæði og stærri hagkerfi. Auðsætt er að ekki er eins hætt við að innflytjendur og neytendur í stærri ríkjum verði fyrir neikvæðum áhrifum.
SVÞ vilja vekja sérstaka athygli á að krafa ESB mun, umfram aðra, bitna á konum sem nota tíðavörur, þ.e. dömubindi og túrtappa. Það telja SVÞ ómálefnalegt og ekki í takt við tímann.
SVÞ telja jafnframt að framkvæmdastjórn ESB hafi gert mistök við lagasetningu, framkvæmdastjórnin hafi farið út fyrir valdsvið sitt eða lagt rangt mat til grundvallar þegar ákveðið var að ekki nægði að merkja vörurnar á ensku eða öðru norðurlandamáli.
Þó efni reglugerðardraganna beri ekki mikið yfir sér má halda því fram að meðferð stjórnvalda á þessu máli geti orðið prófsteinn á hvort og hvaða tækifæri Ísland hefur til að hafa áhrif á þær reglur sem gilda á innri markaði EES og þá ekki síst hvaða vægi ESB gefur séríslenskum hagsmunum. Undanfarin misseri hafa á almennum vettvangi átt sér stað umræður um mögulega ESB-aðild Íslands. Vera kann að þetta mál geti orðið innlegg í slíka umræðu. Þegar efni og eðli málsins er haft í huga telja SVÞ að íslensk stjórnvöld eigi að láta reyna á lögmæti tungumálakröfunnar og þannig gæta íslenskra hagsmuna, t.a.m. fyrir EFTA-dómstólnum.