SVÞ sendi frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu rétt í þessu:

SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu, f.h. Hagsmunahóps blómaverslana, hafa óskað eftir því við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að tollar af innfluttum blómum og plöntum verði teknir til endurskoðunar.

Möguleikar íslenskra blómaverslana til innkaupa á innlendum blómum og plöntum hafa farið þverrandi enda hefur samþjöppun í innlendri framleiðslu og heildsölu í mörgu tilliti leitt til fákeppni. Viðskiptaáhugi heildverslana og innlendra framleiðenda virðist vera takmarkaður og vegna takmarkaðs framboðs eru dæmi þess að heildverslanir hafi úthlutað blómaverslunum innkaupakvóta þegar að vinsælum blómum kemur.

Þrátt fyrir að tollarnir hafi í grundvallaratriðum ekki tekið breytingum í 25 ár hefur innflutningur á blómum og plöntum aukist, m.a. vegna mikilla breytinga á eftirspurn neytenda, innlendu framboði og fjölda innlendra framleiðenda. Tollarnir eru afar háir og sem dæmi má nefna getur viðskiptaverð tíu stykkja búnts af rauðum rósum, sem algengt er sé verðlagt í heildsölu erlendis á 500–650 kr., numið 1.460–1.800 kr. eingöngu vegna tolla en þá á eftir að bæta við flutningskostnaði og öðru því sem innflutningi tengist.

Í erindi SVÞ er m.a. vísað til greinargerðar samtakanna þar sem fram kemur að ýmis blóm og plöntur beri í mörgum tilvikum afskaplega háa tolla þrátt fyrir að framleiðsla á þeim sé ekki til staðar innanlands eða afar takmörkuð. Svo rík samkeppnisvernd í þágu innlendra framleiðenda takmarkar ekki einvörðungu verulega getu blómaverslana til þess að bregðast við óskum neytenda heldur kemur hún harkalega niður á rekstri verslananna en þær eru margar smáar að sniðum og í sumum tilvikum fjölskyldufyrirtæki.