Í Morgunblaðinu þann 6. maí er rætt við Andrés Magnússon, framkvæmdastjóra SVÞ og Sigurjón Örn Þórsson, framkvæmdastjóra Kringlunnar þar sem þeir segja verslunina vera að taka við sér aftur og að þorri íslenskra verslana muni standa af sér kórónuveirufaraldurinn.
Andrés segir í umfjölluninni, „Ef einkaneyslan heldur áfram að aukast eru allar líkur á að verslunin standi þetta af sér.“ Hann segir matvöru- og lyfjaverslun halda sínu og að byggingavöruverslunin hafi gengið mjög vel eftir páska. Raftækjaverslunum hafi gengið þokkalega en margar brugðust við með því að auka netverslun og húsgagnaverslunum hefði líka gengið þokkalega. Þá sé verslun í Kringlunni og Smáralind að nálgast eðlilegt horf en hinsvegar skeri verslun í miðborginni sig úr og útilokað sé að hún komist í eðlilegt form á meðan þetta ástand varir enda sé tekjufallið einna mest hjá verslunum í miðborginni þar sem ferðamenn hafa verið stór hluti viðskiptavina.
Andrés segir einnig netverslun við erlendar netverslanir ekki eins fýsilegar og áður, íslensk netverslun hafi aukið mikið og nokkuð stór hópur fólks sem keypti föt, raftæki og aðra smávöru erlendis nú vera farinn að versla innanlands.
Umfjöllunina í heild sinni má sjá í á bls. 29 í Morgunblaðinu þann 6. maí