Eftirfarandi grein eftir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóra SVÞ, birtist í Kjarnanum á jóladag:

Það verður víst nóg um greinar sem tíunda allt hið slæma sem gerst hefur á því annus horri­bilis sem 2020 hefur ver­ið. En fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott eins og sagði í Dýr­unum í Hálsa­skógi. Kófið hefur haft ýmsar jákvæðar auka­verk­anir og sú sem við hjá SVÞ fögnum helst er að fleiri hafa öðl­ast skiln­ing á mik­il­vægi staf­rænnar umbreyt­ingar og séð kosti hennar og þau tæki­færi sem hún skap­ar. Fjöldi fastheldinna manna og kvenna sem aldrei fyrr hefðu sam­þykkt fund­ar­höld á net­inu, raf­ræna við­burði og annað slíkt, hafa verið neyddir út fyrir þæg­ind­ara­mmann og ýtt af hörku inn í nútím­ann. Fólk sem áður fuss­aði og svei­aði yfir frösum á borð við „sta­f­ræn þró­un” og „sta­f­ræn umbreyt­ing” gerir sér í dag ekki bara grein fyrir því að það verður að vera með, heldur einnig því að þessar breyt­ingar eru af hinu góða ef við höldum rétt á mál­un­um.

Hið opin­bera hefur sett staf­ræna stjórn­sýslu kyrfi­lega á dag­skrá og nýlega bár­ust af því fréttir að Ísland hafi færst upp um sjö sæti á mæli­kvarða Sam­ein­uðu þjóð­anna á staf­rænni opin­berri þjón­ustu og sitji þar nú í 12. sæti af 193 lönd­um. Því ber að fagna, enda njótum við öll góðs af þeirri hag­ræð­ingu sem þessi veg­ferð hefur í för með sér, bæði í tíma og fjár­magni, svo ekki séu nefnd jákvæð umhverf­is­á­hrif. Þeir tæpu tíu millj­arðar á ári sem ríkið mun spara árlega eftir um 3-5 ár eru einnig fjár­munir sem aug­ljós­lega má nýta til betri verka í fram­tíð­inni. Staf­rænt Ísland og tengd verk­efni eru því mik­il­væg og verðug fjár­fest­ing rík­is­ins.

Stjórn­völd hafa einnig hugað að ýmsum fleiri þátt­um, svo sem mál­tækni og gervi­greind, gagna­nýt­ingu, færni­mati á vinnu­mark­aði, tækni­legum innviðum og net­ör­yggi, að ekki sé minnst á nýsköp­un, auk þess að hafa skuld­bundið sig til nor­ræns sam­starfs sem kallar á veru­lega nýt­ingu staf­rænnar tækni – og nauð­syn­legrar til­heyr­andi hæfni. Í sumum þess­ara þátta hefur aðgerðum verið hrint af stað en öðrum ekki.

Það sem stjórn­völdum hefur hins vegar yfir­sést hingað til er að huga að stuðn­ingi við staf­ræna umbreyt­ingu atvinnu­lífs­ins. Tækni­þró­unin er ein­fald­lega svo hröð að ekki er hægt að gera ráð fyrir því að hægt sé að treysta ein­göngu á mark­aðs­öflin til að atvinnu­lífið geti haldið í við hana og nýtt sér ávinn­ing hennar almenni­lega. Þátt­taka í þessu tækni­kapp­hlaupi er óhjá­kvæmi­leg – það er ein­fald­lega ekki hægt að vera ekki með – og eins og staðan er núna er íslenskt atvinnu­líf að drag­ast aftur úr.

Hvað er þá til ráða? Til að Ísland geti verið sam­keppn­is­hæft á alþjóða­svið­inu verðum við öll að leggj­ast á eitt til að efla atvinnu­lífið í nýt­ingu staf­rænnar tækni til verð­mæta­sköp­unar – og sköp­unar starfa. Stjórn­völd víða um heim hafa þegar gert sér grein fyrir þessu, ekki síst á hinum Norð­ur­lönd­unum og víða ann­ars staðar í Evr­ópu þar sem til staðar er skýr skiln­ingur á mik­il­vægi staf­rænnar umbreyt­ingar atvinnu­lífs­ins sem und­ir­stöðu lífs­gæða og vel­ferð­ar. Stjórn­völd þess­ara landa hafa nú fyrir nokkrum árum bæði mótað stefnu og gripið til mark­vissra aðgerða til að tryggja að fyr­ir­tæki þeirra og starfs­fólk á vinnu­mark­aði hafi það sem þarf til þess að halda í við þró­un­ina á alþjóða­vísu og í til­felli nágranna okkar á hinum Norð­ur­land­anna, að vera í fremstu röð staf­rænnar umbreyt­ingar í heim­in­um.

Íslenskt atvinnu­líf er því miður almennt skammt komið á staf­rænni veg­ferð og hefur hingað til ekki hlotið stuðn­ings stjórn­valda í því efni. Því lengur sem við erum að koma okkur almenni­lega af stað, því erf­ið­ara verður að ná og halda í við sam­an­burð­ar­ríki okkar og tryggja til fram­tíðar þá vel­ferð og þau lífs­gæði sem við viljum búa við. Önnur lönd eru komin á fljúg­andi ferð – við verðum að koma okkur úr start­hol­unum sem allra fyrst. Til að íslenskt atvinnu­líf geti nýtt staf­ræna þróun sér og okkur öllum til fram­dráttar þurfa nokkrir hlutir að ger­ast:

  • Stjórnir og stjórn­endur fyr­ir­tækja þurfa að öðl­ast grein­ar­góðan skiln­ing og þekk­ingu á staf­rænni umbreyt­ingu, ávinn­ingi henn­ar, hvernig á að stýra staf­rænum umbreyt­ing­ar­verk­efnum á far­sælan og árang­urs­ríkan hátt og síð­ast en ekki síst því að þessi þróun er ekki ein­stakt verk­efni heldur nýr veru­leiki sem kom­inn er til að vera
  • Bæði stjórn­endur fyr­ir­tækja og starfs­fólk á vinnu­mark­aði þurfa að hafa þá staf­rænu hæfni sem þarf til að geta nýtt sér tækn­ina sér til fram­drátt­ar
  • Fjár­magn til að fara í staf­ræn umbreyt­ing­ar­verk­efni og almennur skiln­ingur þarf að vera á að slík verk­efni eru fjár­fest­ing til fram­tíð­ar, en ekki útgjöld

SVÞ og VR hafa hafið sam­tal við stjórn­völd um þetta mik­il­væga mál og fengið jákvæðar und­ir­tekt­ir. Við höfum lagt til sam­starf þvert á stjórn­völd, atvinnu­líf, vinnu­mark­að, háskóla­sam­fé­lag og aðra hag­að­ila um að hraða staf­rænni þróun í íslensku atvinnu­lífi og á vinnu­mark­aði með vit­und­ar­vakn­ingu og efl­ingu staf­rænnar hæfni, til að tryggja sam­keppn­is­hæfni Íslands og lífs­gæði í land­inu. Lagðar hafa verið fram mark­viss­ar, skýrar og vel ígrund­aðar til­lögur sem eru til­búnar til fram­kvæmda. Málið er til skoð­unar hjá stjórn­völdum og vonir okkar standa til að sam­starf geti haf­ist sem allra fyrst á nýju ári.

Staf­ræn veg­ferð rík­is­ins hefur sýnt, svo ekki verður um vill­st, að ef við Íslend­ingar tökum skýra ákvörðun um að ganga í málin getum við áorkað ótrú­leg­ustu hlut­um. Á met­tíma höfum við rokið upp stiga­töfl­una í opinberri staf­rænni stjórn­sýslu. Nú er kom­inn tími til að setja staf­ræna umbreyt­ingu atvinnu­lífs­ins á dag­skrá, rjúka upp þá stiga­töflu og verða full­gildir þátt­tak­endur með frændum okkar á Norð­ur­lönd­unum í því að leiða stafræna umbreyt­ingu okkur öllum til heilla.