Samkvæmt frétt frá RÚV 3.janúar sl., hafa Norðmenn náð glæsilegum árangri í aukningu hlutfalls rafbíla í bílaflota sínum. Í Noregi eru rafbílar nú tæplega 90% nýskráninga, en á sama tíma hefur hlutfallið hér á landi minnkað úr um 75% árið 2022 niður í 47% árið 2023.
Í viðtali við RÚV segir Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins og SVÞ, að skýringar á þessari þróun megi m.a. rekja til breyttra skattareglna og ónógra innviða fyrir rafbílaeigendur á Íslandi.
„Það skiptir máli að stjórnvöld veiti stöðugan stuðning við orkuskipti, bæði með fjárhagslegum hvötum og markvissri uppbyggingu innviða,“ segir Benedikt.
Norðmenn sýni fyrirsjáanleika sem skorti hér
„Munurinn liggur kannski í grundvallaratriðum í því að Norðmenn tilkynntu það fyrir einhverjum áratug að þeir ætluðu að halda úti ívilnunarkerfi sem að myndi lifa væntanlega, ef ég man rétt, út árið 2025. Þeir hafa frá þeim tíma ekki gert grundvallarbreytingar á því kerfi og það er þá fólgið í vaskniðurfellingu, það er eftirgjöf á því sem mætti kalla ígildi vörugjalds hér og það í raun og veru hefur skilað rafbílakaupendum þar verulega hagstæðu verði.“
Kerfið í Noregi, segir Benedikt, er svipað og það var hér árið 2022 þegar ívilnanir voru hvað mestar. Eina ívilnunin hér núna er 900 þúsund króna styrkur úr Orkusjóði, á síðasta ári fyrir kaup á bíl upp að verðmæti tíu milljónir króna, en um áramótin hækkaði sú upphæð í tólf milljónir. Þá hafi hér bæst við kílómetragjald á rafbíla, sem ekki sé í Noregi og tiltölulega hátt bifreiðagjald. Breytingar sem hafi verið gerðar hafi verið óskynsamlegar, en fyrst og fremst skorti fyrirsjáanleika.
Fyrir áhugasama má sjá upphaflega frétt RÚV hér: Norðmenn auka hlutfall rafbíla.