Samkvæmt tilkynningu frá Rannsóknasetri verslunarinnar var velta í byggingavöruverslun 16,7% meiri í febrúar en í sama mánuði í fyrra eða rúmlega 20% meiri á föstu verðlagi. Vetrarmánuðirnir eru jafnan rólegir í byggingavöruverslun en veltan í febrúar var sambærileg veltu aprílmánaðar undanfarin tvö ár á föstu verðlagi. Má því segja að vorið í byggingavöruverslun komi nú tveimur mánuðum á undan áætlun. Verð byggingavara var nokkuð lægra í liðnum mánuði en í febrúar í fyrra og hafa sem dæmi verkfæri lækkað í verði um ríflega 7% frá fyrra ári en efni til viðhalds hækkað um tæpt prósent.
Töluverð veltuaukning hefur verið í húsgagnaverslun undanfarna mánuði og var veltan í febrúar 38,7% meiri en á sama mánuði í fyrra. Séu síðustu tólf mánuðir bornir saman við tólf mánaða tímabilið þar á undan hefur vöxtur í sölu húsgagna verið 17,4% en 19,2% á föstu verðlagi. Verðlag húsgagna hækkaði nokkuð í febrúar frá fyrra ári, eða um 4,3%. Má þó geta þess að verðlag síðustu tólf mánaða er um 1,4% lægra að meðaltali en verðlag á því tólf mánaða tímabili sem á undan kom.
Febrúar var degi lengri í ár en venjulega og sáust þess merki í dagvöruverslun, sem var 8,7% meiri í febrúar í ár en í fyrra. Árstíðarleiðrétt velta á föstu verðlagi var 3,9% meiri en í fyrra en verðlag dagvöru var 1,4% hærra en í febrúar í fyrra. Velta dagvöruverslana á milli ára er nokkuð viðkvæm fyrir hlaupárum enda velta flokksins jafnan nokkuð stöðug við hefðbundinn samanburð jafn langra mánaða. Svo fjölgun daga sé sett í samhengi við áðurnefndan veltuvöxt voru 3,6% fleiri dagar í febrúar árið 2016 en árið 2015 og því er rétt að miða við árstíðaleiðréttu töluna. Telst sú veltuaukning þó nokkur jafnvel þegar gert hefur verið ráð fyrir þessu.
Velta áfengisverslunar fyrir virðisaukaskatt var 18,7% meiri og fjöldi seldra lítra áfengis 4,8% meiri í febrúar nú en fyrir ári síðan. Skýrist mismunurinn að mestu leyti af breytingum á skattheimtu áfengis um áramótin þegar VSK var lækkaður en áfengisgjöld, sem innheimt eru á framleiðslu- eða innflutningsstigi, voru hækkuð á móti. Verð áfengis var 1% hærra í febrúar í ár samanborið við sama mánuð í fyrra.
Veltuvísitala eftir vöruflokkum
Velta í dagvöruverslun jókst um 8,7% á breytilegu verðlagi í febrúar miðað við sama mánuð í fyrra og um 7,1% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta dagvöruverslana í febrúar um 3,9% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru hækkaði um 1,4% á síðastliðnum 12 mánuðum og var í febrúar 0,1% lægra en í mánuðinum á undan.
Sala áfengis jókst um 18,7% í febrúar miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 17,5% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta áfengis á föstu verðlagi í febrúar um 13% frá sama mánuði í fyrra. Verð á áfengi var 1% hærra í febrúar síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.
Fataverslun jókst um 5,9% í febrúar miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og um 5,1% á milli ára á föstu verðlagi. Verð á fötum var 1% hærra í febrúar síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.
Velta skóverslunar minnkaði um 10,9% í febrúar á breytilegu verðlagi og minnkaði um 10,6% á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum minnkaði skósala um 9,8% frá sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi. Verð á skóm lækkaði í febrúar um 0,3% frá febrúar í fyrra.
Velta húsgagnaverslana var 38,7% meiri í febrúar en í sama mánuði í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 33,1% á föstu verðlagi. Velta sérverslana með rúm jókst um 30,1% frá því í fyrra á breytilegu verðlagi. Velta sérverslana með skrifstofuhúsgögn jókst um 47,5% á breytilegu verðlagi.
Verð á húsgögnum hefur lækkað um 4,3% á síðustu 12 mánuðum.
Verslun með byggingavörur jókst í febrúar um 16,7% á breytilegu verðlagi og um 20,2% á föstu verðlagi. Verð á byggingavöru er 2,9% lægra en fyrir 12 mánuðum síðan.
Velta í sölu á tölvum stóð í stað í febrúar á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra og farsímasala jókst um 9,6%. Sala minni raftækja, svokallaðra brúnvara, dróst saman um 6,1% á breytilegu verðlagi en sala stærri raftækja, svokallaðra hvítvara, jókst um 3,3% á milli ára. Verð á raftækjum fer almennt lækkandi. Þannig var verð á stórum raftækjum sem dæmi 5,9% lægra en fyrir 12 mánuðum síðan.
Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson arni@bifrost.is og í síma 868-4341