Fimmtudaginn 10. nóv. var haldinn félagsfundur á vegum SVÞ um réttindi og skyldur vegna sölu á netinu. Á fundinum héldu fulltrúar frá Neytendastofu, þ.e. sviðsstjóri og lögfræðingur neytendaréttarsviðs stofnunarinnar, erindi þar sem starfsemi Neytendastofu var kynnt ásamt því að kynnt voru helstu lög og reglur sem gilda um sölu á vörum og þjónustu á netinu.
Á fundinum var kynnt fyrir fundargestum ákvæði nýrra laga um neytendasamninga og hvaða breytingar þau hafa í för með sér fyrir netsölu. Þá var einnig lögð sérstök áhersla á almenna upplýsingaskyldu seljenda samkvæmt lögunum og var megináhersla lögð á að fara yfir skyldur seljenda og réttindi neytenda við fjarsölu og sölu utan fastrar starfsstöðvar. Ásamt því að kynna þær skyldur sem hvíla á seljendum var einnig farið yfir þau tilvik sem takmarka réttindi neytenda, s.s. varðandi fresti til að skila vörum og hvaða vörum ekki er unnt að skila.
Fram kom á fundinum mikilvægi þess að seljendur birti á sölusíðum fullnægjandi upplýsingar um starfsemi sína og þá vöru sem stendur þar neytendum til boða, þ.m.t. eiginleika hennar. Kom m.a. fram í máli lögfræðings Neytendastofu að ófullnægjandi upplýsingar geta í ákveðnum tilvikum lengt þann frest sem neytendur hafa til að falla frá kaupum. Þá var ítrekað mikilvægi þess að verðupplýsingar séu settar fram á skýran og greinargóðan hátt sem og réttur aðila til að falla frá kaupum ásamt þeim úrræðum sem neytendum standa til boða vegna ágreiningsmála.
Fulltrúar Neytendastofu vöktu að lokum sérstaka athygli á reglugerð um upplýsingar um nýtingu réttar til að falla frá samningi þar sem birtar eru staðlaðar leiðbeiningar vegna uppsagnar á kaupum. Var mælt með því að seljendur styðjist við þær leiðbeiningar, hvort sem þær væru nýttar orðréttar eða þær staðfærðar hjá hverjum og einum. Þá bentu þeir á að seljendur geta leitað til Neytendastofu, m.a. til að bera undir stofnunina framsetningu á upplýsingum á sölusíðum.
Hlekkur inn á reglugerð 435/2016 um nýtingu réttar til að falla frá samningi
Umfjöllun á vef Neytendastofu um sölu í fjarsölu eða utan fastrar starfsstöðvar