Samkeppnisstaða íslenskrar netverslunar

Andrés Magnússon framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu
Greinin birtist í Fréttablaðinu 28.03.18.

Á Íslandi jafnt sem annars staðar vex netverslun nú hröðum skrefum. Sífellt stærri hópur neytenda kýs að haga viðskiptum sínum með þessum hætti, ekki síst yngra fólkið, s.k. aldamótakynslóð (e. Millennials eða Generation Y). Þessi þróun mun ekkert gera nema halda áfram á næstunni, aðeins á mun meiri hraða en hingað til.

Nýjar áskoranir fyrir alla
Breytingar sem þessar hafa í för með sér nýjar áskoranir fyrir verslunar- og þjónustufyrirtæki. Samkeppnin tekur á sig nýjar myndir, en í netverslun er samkeppnin fyrst og fremst alþjóðleg og þannig þvert á landamæri ríkja. Þó að samkeppnin sé alþjóðleg er engu að síður mikilvægt að allir aðilar á markaði, standi jafnt að vígi, hvar sem þeir eru staðsettir í heiminum. Þessar breytingar hafa nefnilega ekki aðeins í för með sér áskoranir fyrir fyrirtækin sem keppa á þessum markaði. Áskorunin er ekki síðri fyrir tollayfirvöld, en þeim ber að tryggja að greidd séu lögboðin gjöld af viðskiptum sem fara fram með þessum hætti og þannig stuðla að heilbrigðri samkeppni hvað innheimtu gjalda varðar.

Netverslun eykst hröðum skrefum
Á sl. ári voru um 550.000 sendingar til einstaklinga sem keypt höfðu vöru í netviðskiptum tollafgreiddar hér á landi. Var þar um 60% aukningu að ræða frá árinu 2016 og óhætt er að fullyrða að þessi tala fer hækkandi með hverju ári. Samkvæmt lögum eru eingöngu sendingar sem eru annað hvort gjafir eða þar sem verðmæti innihaldsins er 2.000 kónur eða minna undanþegnar virðisaukaskatti. Eins og staðan er núna má fullyrða að stór hluti sendinga komi til landsins án þess að greidd séu af þeim lögboðin opinber gjöld, fyrst og fremst virðisaukaskattur. Ríkissjóður verður þar með af verulegum skatttekjum, sem miðað við umfangið hljóta að nema hundruðum milljóna króna. Þess utan er póstþjónusta í Kína, þaðan sem stærstur hluti þessara sendinga kemur, niðurgreidd af stjórnvöldum þar í landi sem augljóslega vegur þungt í alþjóðlegri samkeppni.

Allir sitji við sama borð
Eins og öllum má ljóst vera er samkeppnisstaða íslenskrar netverslunar mjög þröng við þær aðstæður sem hér er lýst, svo ekki sé fastar kveðið að orði. Aftur á móti er samkeppni mikilvægur hlekkur í að efla innlenda starfsemi og stuðla að framþróun á þeim mörkuðum þar sem samkeppni ríkir. Hins vegar er mikilvægt að tryggja að aðilar sitji við sama borð er viðkemur opinberum kröfum og samspil við leikreglur á samkeppnismarkaði. Því er krafan vegna netviðskipta einfaldlega sú að tryggt verði að greiddur verði virðisaukaskattur af öllum vörum sem keyptar eru í formi netviðskipta til landsins, nema af þeim vörum sem óumdeilanlega eru undanþegnar skattskyldu. Þar sem hér fara saman hagsmunir hins opinbera og hagsmunir íslenskrar verslunar, er þetta svo sjálfsagt mál, að það ætti ekki einu sinni að þurfa að nefna það.