Í dag, 20. desember, birtist eftirfarandi grein eftir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóra SVÞ, í Morgunblaðinu:

Tekjur sveitarfélagana af fasteignasköttum hafa aukist gífurlega á undanförnum árum. Nú er svo komið að aldrei í sögunni hafa sveitarfélögin á Íslandi haft jafnmiklar tekjur á hvern íbúa af þessum skattstofni. Að meðaltali greiðir hver Íslendingur 70% meira í fasteignaskatt á árinu 2018 en hann gerði fyrir tuttugu árum. Fasteignaskattarnir eru ekki aðeins háir í sögulegu samhengi, heldur eru þeir einnig mun hærri en í þeim löndum sem við berum okkur oftast saman við. Fasteignaeigendur greiða þessi árin um 1,5% af vergri landsframleiðslu í fasteignaskatta, en það er næstum því tvöfalt hærra hlutfall en meðaltalið í hinum ríkjum Norðurlandanna.

Flest sveitarfélög með hámarksálagningu

Samkvæmt lögum er hámarksálagning fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði 1,65% af fasteignamati. Langflest sveitarfélögin nýta sér þetta hámark, en eins og staðan er núna er vegin meðalskattprósenta fasteignaskatts einungis 0,02% frá mögulegri hámarksálagningu. Hún hefur farið hækkandi á síðustu árum þar sem fleiri sveitarfélög hafa fært skattprósentuna upp í leyfilegt hámark.

Reykjavík sker sig úr

Þó að flest sveitarfélög nýti sér lagaheimildina til hins ýtrasta, sker Reykjavíkurborg sig úr, þar sem rúmlega helmingur af heildarverðmæti atvinnuhúsnæðis á landinu er í höfuðborginni. Reykjavík leggur eins háa fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði og lög leyfa. Því rennur meirihluti þeirra skatta sem innheimtir eru á landinu í formi fasteignaskatts til borgarsjóðs Reykjavíkur.

Áhrif á leiguverð atvinnuhúsnæðis

Hin gífurlega hækkun fasteignaskatta undanfarin ár, samhliða mikilli hækkun fasteignamats, hefur þegar haft veruleg áhrif á leiguverð atvinnuhúsnæðis til hækkunar. Fasteignaskattarnir hafa mjög íþyngjandi áhrif á rekstur fasteignafélaganna og hafa þar með leitt af sér verulega hækkun á leiguverði atvinnuhúsnæðis. Áhrif þessa eru augljóslega mest í Reykjavík, þar sem stærstur hluti atvinnuhúsnæðisins í landinu er.

Hin aðkallandi spurning er því þessi: Vilja borgaryfirvöld stuðla að bættu rekstrarumhverfi fyrirtækjanna í borginni, með myndarlegri lækkun fasteignaskatta? Ef þau með athöfnum sínum svara spurningunni neitandi, eru borgaryfirvöld að senda þau skilaboð að fyrirtæki skuli frekar hasla sér völl utan höfuðborgarinnar, eigi þau kost á slíku.