Samkvæmt mælingum Rannsóknaseturs verslunarinnar jókst velta dagvöruverslana í apríl um 9,3% að nafnvirði frá sama mánuði í fyrra og um 12,6% að raunvirði. Skýringuna á þessari aukningu má að mestu rekja til þess að páskarnir voru í apríl síðastliðnum en ekki í samanburðarmánuðinum í fyrra – heldur í mars. Þegar leiðrétt hefur verið fyrir þessum árstíðamun nemur veltuaukningin að raunvirði um 6,9%. Samkvæmt þessu er greinilegt að landsmenn gera betur við sig í mat og drykk en í fyrra. Verð á dagvöru er nú 2,9% lægra en fyrir ári samkvæmt verðmælingu Hagstofunnar og fer lækkandi milli mánaða.
Innlend faraverslun heldur áfram að dala þó nokkur munur sé á milli einstakra verslanakeðja. Ræður þar nokkru að fataverslunum hefur fækkað. Þá er líklegt að áhrif tímasetningar páskanna hafi ekki sömu áhrif í árssamanburði og þegar horft er til dagvöruverslana. Færri söludagar í apríl síðastliðnum en í samanburðarmánuðinum í fyrra hafa áhrif til lækkunar á veltu. Þá ferðuðust landsmenn mikið til útlanda í apríl og kortavelta Íslending erlendis jókst umtalsvert, en sem kunnugt er fer töluverður hluti fataverslunar Íslendinga fram erlendis.
Skýringin á því að velta í byggingavöruverslun í apríl minnkaði um 2% frá sama mánuði í fyrra er tvímælalaust vegna færri söludaga í apríl á þessu ári en i fyrra og því frekar um mánaðarsveiflu að ræða frekar en almennan samdrátt. Horft yfir veltu byggingavöruverslana síðustu sex mánaða í samanburði við sama tímabil í fyrra sýnir veltuaukningu um 11%.
Verðlækkanir
Verð í nánast öllum vöruflokkum hefur lækkað í árssamanburði. Þannig lækkaði til dæmis verð á svokölluðum brúnum raftækjum (sjónvörp, hljómtæki o.s.frv.), um 18% í apríl sl. frá apríl í fyrra samkvæmt verðmælingu Hagstofunnar. Þó ber að hafa í huga að hugsanlegar gæðabreytingar á þessum vörutegundum kunna að torvelda verðsamanburð. Velta á þessum tegundum raftækja. jókst um 28% að raunvirði á síðasta tólf mánaða tímabili.
Þá lækkaði verð á rúmum um 8,3% og velta sérverslana með rúm jókst um 45,4% að raunvirði á tímabilinu.
Kortavelta íslenskra heimila
Greiðslukortavelta íslenskra heimila hér innanlands nam 62,8 milljörðum kr. í apríl og 11,9 milljörðum í útlöndum. Útlendingar keyptu hins vegar hér á landi með kortum sínum fyrir 18,2 milljarða. Munurinn á því sem Íslendingar greiddu með kortum sínum erlendis og útlendingar greiddu hér á landi nam því 6,4 milljörðum.
Talnaefni
Velta í dagvöruverslun jókst um 9,3% á breytilegu verðlagi í apríl miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 12,6% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta dagvöruverslana í apríl um 6,9% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru lækkaði um 2,9% á síðastliðnum 12 mánuðum og var í apríl 0,4% lægra en í mánuðinum á undan.
Sala áfengis jókst um 5,8% á breytilegu verðlagi í apríl miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 5,5% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta áfengisverslana í apríl um 4,4% frá sama mánuði í fyrra. Verð á áfengi var 0,3% hærra í apríl síðastliðnum og óbreytt frá mánuðinum á undan.
Fataverslun dróst saman um 24,3% í apríl miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og dróst saman um 20,7% á milli ára á föstu verðlagi. Verð á fötum var 4,5% lægra í apríl síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.
Velta skóverslunar minnkaði um 12% í apríl á breytilegu verðlagi og minnkaði um 13,3% á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum minnkaði skósala um -14,5% frá sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi. Verð á skóm hækkaði í apríl um 1,5% frá apríl í fyrra.
Velta húsgagnaverslana var 6,2% meiri í apríl en í sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 15,8% á föstu verðlagi. Velta sérverslana með rúm jókst um 33,3% frá því í fyrra á breytilegu verðlagi. Velta sérverslana með skrifstofuhúsgögn dróst saman um 18,9% á breytilegu verðlagi. Verð á húsgögnum hefur lækkað um 8,3% á síðustu 12 mánuðum.
Verslun með byggingavörur minnkaði í apríl um 2% í apríl á breytilegu verðlagi og dróst saman um 0,6% á föstu verðlagi. Verð á byggingavöru er 1,4% lægra en fyrir tólf mánuðum síðan. Þá jókst velta gólfefnaverslana um 3,9% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra.
Velta í sölu á tölvum jókst í apríl um 3,1% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra og farsímasala dróst saman um 10,5%. Sala minni raftækja, svokallaðra brúnvara, jókst um 5% á breytilegu verðlagi en sala stærri raftækja, svokallaðra hvítvara, dróst saman um 7,6% á milli ára.
Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson arni@bifrost.is og í síma 868-4341