Samkvæmt upplýsingum frá Rannsóknasetri verslunarinnar jókst velta öllum flokkum Smásöluvísitölunnar í maí mælt á föstu verðlagi. Dagvöruverslun í maí var 4,1% meiri en í sama mánuði í fyrra en einnig var töluverður veltuvöxtur í flokkum varanlegra neysluvara. Sem dæmi jókst húsgagnaverslun um 18% og byggingavöruverslun um 22%, verslun með raftæki jókst einnig nokkuð.
Þó dagvöruverslun sveiflist jafnan ekki mikið hefur velta hennar verið nokkuð lífleg undanfarin misseri. Eins og áður kom fram jókst velta flokksins um 4,1% á föstu verðlagi frá fyrra ári en í maí 2016 voru fjórir föstudagar og laugardagar samanborið við fimm í sama mánuði í fyrra. Ef tekið er tilllit til árstíðabundinna þátta og vikudagaáhrifa jókst velta dagvöruverslunar því meira, eða um 5,9% frá maí 2015 á föstu verðlagi.
Mikil verslun var með byggingavörur í maí og hefur vísitala byggingavöruverslunar ekki staðið hærra frá því flokknum var bætt inn í Smásöluvísitöluna, gildir þá einu hvort mælt er á föstu eða breytilegu verðlagi. Þannig var velta byggingavöruverslunar í maí 6,6% hærri en í fyrra hámarki sínu í júlí 2015 á breytilegu verðlagi. Verslun með byggingavörur var 22% meiri en í maí í fyrra á föstu verðlagi en 23,7% meiri á breytilegu verðlagi. Verðlag byggingavara hefur á sama tíma hækkað um 1,6%.
Þó verslun með fatnað og skó hafi aukist lítillega frá maí 2015 á föstu verðlagi dregst velta flokkanna saman á breytilegu verðlagi. Velta fataverslana dróst saman um hálft prósent á breytilegu verðlagi frá maí í fyrra en jókst um 2,9% á föstu verðlagi. Skóverslun minnkaði um 7,2% frá maí í fyrra en jókst um 0,6% á föstu verðlagi. Samkvæmt verðlagsmælingu Hagstofunnar var verðlag fatnaðar í maí síðastliðnum 3,1% lægra en í maí 2015 og verðlag skófatnaðar 7,6% lægra en á sama tíma í fyrra.
Verslun með húsgögn jókst um 18,9% í maí á breytilegu verðlagi frá sama mánuði í fyrra en um 18,3% á föstu verðlagi. Húsgagnaverslun hefur verið lífleg undanfarna mánuði en ef síðustu sex mánuðir eru bornir saman við sama tímabil ári áður er aukningin um 27%. Á sama tímabili hefur verðlag nær staðið í stað.
Veltuvísitala eftir vöruflokkum
Velta í dagvöruverslun jókst um 5,7% á breytilegu verðlagi í maí miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 4,1% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta dagvöruverslana í maí um 5,9% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru hækkaði um 1,6% á síðastliðnum 12 mánuðum og var í maí 0,3% hærra en í mánuðinum á undan.
Sala áfengis jókst um 16,8% á breytilegu verðlagi í maí miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 15,9% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta áfengisverslana í maí um 24,8% frá sama mánuði í fyrra. Verð á áfengi var 0,8% hærra í maí síðastliðnum og 0,1% hærra en í mánuðinum á undan.
Fataverslun dróst saman um 0,5% í maí miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 2,9% á milli ára á föstu verðlagi. Verð á fötum var 3,1% lægra í maí síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.
Velta skóverslunar minnkaði um 7,2% í maí á breytilegu verðlagi og jókst um 0,6% á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum jókst skósala um 0,2% frá sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi. Verð á skóm lækkaði í maí um 7,6% frá maí í fyrra.
Velta húsgagnaverslana var 18,9% meiri í maí en í sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 18,3% á föstu verðlagi. Velta sérverslana með rúm jókst um 9,9% frá því í fyrra á breytilegu verðlagi. Velta sérverslana með skrifstofuhúsgögn jókst um 19,4% á breytilegu verðlagi. Verð á húsgögnum hefur hækkað um 0,5% á síðustu 12 mánuðum.
Verslun með byggingavörur jókst í maí um 23,7% í maí á breytilegu verðlagi og jókst um 22% á föstu verðlagi. Verð á byggingavöru er 1,6% hærra en fyrir tólf mánuðum síðan.
Velta í sölu á tölvum jókst í maí um 10,2% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra og farsímasala jókst um 11,3%. Sala minni raftækja, svokallaðra brúnvara, jókst um 9,8% á breytilegu verðlagi en sala stærri raftækja, svokallaðra hvítvara, jókst um 8,3% á milli ára.
Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson arni@bifrost.is og í síma 868-4341