Nýjustu tölur Rannsóknaseturs verslunarinnar (RSV) sýna áframhaldandi mikla aukningu erlendrar netverslunar Íslendinga.

Í júní 2025 nam umfangið rúmum 3 milljörðum króna eða sem nemur 28% aukningu miðað við sama mánuð síðasta árs. Frá maí jókst umfangið um tæp 7%.

Á fyrstu sex mánuðum ársins hefur erlend netverslun Íslendinga numið 15,8 milljörðum króna, eða sem nemur 20,7% aukningu miðað við sama tímabil 2024. Haldi þessi þróun áfram má gera ráð fyrir að heildarfjárhæðin ársins 2025 verði rúmlega 36 milljarðar króna.

Hver fullorðinn Íslendingur eyðir 126 þúsund krónum á ári

Fjárhæðin 36 milljarðar króna jafngildir því að hver fullorðinn Íslendingur verji að meðaltali um 126 þúsund krónum á ári í erlenda netverslun – eða um 10 þúsund krónum á mánuði. Þessir fjármunir renna alfarið úr íslensku hagkerfi til erlendra fyrirtækja sem í ýmsu tilliti fylgja ekki sömu reglum og íslensk verslun hvað varðar t.d. skatta, gjöld og öryggiskröfur.

Leikvöllurinn er ekki jafn

SVÞ hafa ítrekað bent á að samkeppnistöðu fyrirtækja hefur verið raskað þegar íslensk fyrirtæki sæta eftirliti og viðurlögum hlíti þau ekki kröfum regluverks sem að mestu á að vera hið sama á EES-svæðinu á meðan aðrir komist upp með að gera það ekki. Þá þurfa fyrirtækin að bera kostnað við innkaup, innflutning, ýmis konar gæðaeftirlit og sölustarf, á meðan netmarkaðstorg erlendis bjóða í mörgum tilvikum vörur til sölu miðað við allt aðrar forsendur. SVÞ og Norræn systursamtök hafa bent á þess stöðu kallað eftir því að Evrópusambandið tryggi að öllum leikendum á innri markaðnum verði gert að hlíta sömu reglum og kvöðum.

„Við þekkjum fjölmörg dæmi þess hve mikið hallar á íslensk og evrópsk fyrirtæki. Ef ekkert verður að gert mun erlend netverslun, sem hugar ekki að þeim reglum sem gilda, halda áfram að vaxa m.a. á kostnað þeirrar verslunar sem fyrir er, greiðir alla skatta og gjöld og stendur undir atvinnu og þjónustu hér heima,“ segir Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ.

Mikilvægt að ræða samfélagsleg áhrif

„Það er ágætt að hafa í huga að þeir sem versla er á erlendum netmarkaðstorgum eru í raun einnig að vísa skatttekjum, störfum og þjónustu til annarra landa. Þegar við kaupum heima erum við líka að hlúa að samfélaginu okkar,“ segir Benedikt og bætir við „hið minnsta væri skynsamlegt að huga að því að beina viðskiptum að ábyrgum aðilum sem ganga úr skugga um að þær vörur sem þeir hafa á boðstólum uppfylli settar kröfur og geti staðið við þær upplýsingar sem þeir veita. Það er engin að biðja um að lokað verði á erlenda netverslun eða henni settar strangar skorður heldur þarf að tryggja að samkeppni eigi sér stað á jöfnum leikvelli.“