Eftirfarandi grein eftir Jón Ólaf Halldórsson, formann SVÞ, birtist í Morgunblaðinu í dag, 22. júní:
Ánægjulegur viðsnúningur
Verslunin fór ekki varhluta af afleiðingum samkomubannsins sem sett var þegar útbreiðsla kórónuveirunnar stóð sem hæst. Verulegur samdráttur mældist í einkaneyslu bæði í mars og apríl miðað við sömu mánuði árið áður. Þetta kom engan veginn á óvart enda lá þjóðfélagið meira og minna í dvala á þessum tíma.
Það er þess vegna ánægjulegt að sjá hversu viðsnúningurinn er afgerandi nú þegar slakað hefur verið á samkomubanni og lífið að verulegu leyti að sækja í eðlilegt horf. Velta innlendra greiðslukorta í maí sýnir svo ekki verður um villst að áfram er sterkur kaupmáttur meðal þorra almennings.Við Íslendingar höfum áður sýnt hvað í okkur býr þegar á móti blæs og bendir allt til að við ætlum einnig að sýna það núna. Við erum ólm í að mála húsin okkar og smíða palla við sumarbústaðina og svo þykir okkur áfram gott að gera vel við okkur í mat og drykk. Allt þetta lýsir íslenskri þjóðarsál vel og sýnir að sennilega erum við einfaldlega sterkust þegar mest á reynir.
Það er ljóst að vilji landans til að ferðast erlendis verður takmarkaður á þessu ári. Önnur hagkerfi munu því ekki njóta einkaneyslu okkar íslendinga í sama mæli og áður. Þetta hjálpar vissulega til. Það breytir hins vegar ekki þeirri staðreynd að sú aukning sem greinilega er að verða í einkaneyslunni, skiptir miklu við endurreisn efnahagslífsins. Öflug íslensk verslun mun gegna þar lykilhlutverki.