SVÞ héldu þann 17. nóvember félagsfund þar sem kynntar voru þær breytingar sem hafa verið gerðar á evrópsku regluverki um persónuverndarlöggjöf. Eins og fram kom á fundinum er um að ræða umfangsmestu breytingar sem gerðar hafa verið á persónuverndarlöggjöfinni í tvo áratugi þar sem vernd persónuupplýsinga einstaklinga er tryggð enn frekar og munu reglurnar einnig efla hinn stafræna innri markað Evrópu. Í samræmi við EES-skuldbindingar íslenska ríkisins ber að innleiða þessar breyttu reglur í innlendan rétt í maí 2018.

Frummælendur á fundinum voru frá Persónuvernd, þ.e. Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, og Vigdís Eva Líndal, verkefnastjóri EES-mála hjá stofnuninni. Kynnti Helga Þórisdóttir hina nýju Evrópureglugerð um persónuvernd og það breytta landslag sem fram undan er í persónuverndarmálum hérlendis, og í framhaldinu fjallaði Vigdís Eva Líndal nánar um einstaka skyldur sem fyrirtæki þurfa sérstaklega að huga að til að mynda aukna fræðslu til neytenda, skipun persónuverndarfulltrúa, gerð persónusniða o.fl.

Á fundinum kom fram breytingarnar munu að óbreyttu taka gildi hérlendis í maí 2018 og fyrir þann tíma þurfa fyrirtæki að aðlaga starfsemi sína að breyttum og auknum kröfum til persónuverndar og öryggis persónuupplýsinga. Réttindi einstaklinga t.d. til fræðslu og aðgangs að upplýsingum eru bætt og eftirlit persónuverndarstofnana aukið. Aukin ábyrgð fyrirtækja, stórauknar sektarheimildir eftirlitsstofnana og ríkari kröfur til öryggis persónuupplýsinga gera persónuvernd að lykilatriði í rekstri fyrirtækja sem vinna slíkar upplýsingar.

Gagnlegar umræður sköpuðust um þessi málefni á fundinum og er einnig ljóst að margt á enn eftir að skýrast um framkvæmdina samhliða innleiðingu á regluverkinu. Hins vegar er mikilvægt að fyrirtæki hefji sem fyrst undirbúning að því að aðlaga starfsemi sína að breyttu regluverki.

Kynningar frá fundinum:
Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar – Ný Evrópureglugerð um persónuvernd og það breytta landslag sem fram undan er í persónuverndarmálum hérlendis
Vigdís Eva Líndal, verkefnastjóri EES-mála hjá Persónuvernd – Skyldur sem fyrirtæki þurfa sérstaklega að huga að

Hlekkur inn á heimasíðu Persónuverndar þar sem unnt er að nálgast frekari upplýsingar og kynningarefni.

http://www.personuvernd.is/ny-personuverndarloggjof-2018/