Á þessu ári hefur kærunefnd vöru- og þjónustukaupa fellt þrjá úrskurði sem tilefni er til vekja athygli á. Í öllum tilvikum var deilt um hvort verslun væri bundin við ranga verðmerkingu á söluvörum. Úrlausnir kærunefndarinnar gefa til kynna að vanda þarf til verka við verðmerkingar, hvort heldur er á verslunarvörum í hefðbundinni verslun eða þegar slíkar vörur eru seldar í netverslun.
Í tveimur úrskurðum kærunefndarinnar frá 28. janúar 2022 var deilt um hvort verslun væri skylt að efna samninga um sölu á verkfærasettum þar sem mistök höfðu leitt til þess að uppgefið tilboðsverð nam aðeins 10% af því verði sem til stóð að bjóða. Ekki var fallist á kröfu neytanda og var verslunin því óbundin af hinu ranga verði. Í úrskurði kærunefndarinnar frá 18. október 2022 var deilt um hvort verslun væri skylt að efna samning um kaup á fjórhjóli þar sem mistök höfðu leitt til þess að verð þess hafði verið merkt einni milljón króna lægra en til stóð. Fallist var á kröfu neytanda og var úrskurðurinn efnislega á þá leið að versluninni væri skylt að standa við hið rangt merkta verð.
Af lestri úrskurðanna verður ráðið að það hallar í verulegum atriðum á verslunina þegar mistök verða við verðmerkingu. Því er afar brýnt að ganga úr skugga um að vörur sé rétt verðmerktar. Hafa ber í huga að ákvæði 5. mgr. 3. gr. reglna nr. 536/2011, um verðmerkingar og einingarverð við sölu á vörum, eru svohljóðandi:
Fyrirtæki skal selja vöru á því verði sem verðmerkt er einnig þótt um mistök sé að ræða. Þetta á hins vegar ekki við ef kaupanda má vera ljóst að um mistök sé að ræða.
Mjög mikið þarf að koma til eigi að takast á sýna fram á að kaupanda hafi verið mistökin ljós.
Nánari upplýsinga má leita hjá Benedikt S. Benediktssyni, lögfræðingi SVÞ, benedikt(hjá)svth.is, s. 864-9136.