Húsfyllir var á ráðstefnu SVÞ sem haldin var á Hilton Reykjavík Nordica fimmtudaginn 17. mars sl. Ari Eldjárn kynnti fyrirlesara og kitlaði hláturtaugar ráðstefnugesta eins og honum einum er lagið.
Í ávarpi Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra gætti bjartsýni gagnvart íslenskri verslun sem hann taldi að ætti að geta staðið verslun í nágrannalöndum jafnfætis á samkeppnisgrundvelli í kjölfar afnáms tolla og vörugjalda. Kom einnig fram í máli ráðherra að vísitölur sýndu að verslunin væri að skila þessum ávinningi til neytenda. Þá sagðist ráðherra vera ósáttur við tilboðsauglýsingar Fríhafnarinnar og taldi að ríkið ætti að draga úr umsvifum sínum á þessum markaði.
Margrét Sanders formaður SVÞ lagði áherslu á útvistun verkefna frá hinu opinbera til einkageirans í erindi sínu undir yfirskriftinni „Einkarekstur eða opinber rekstur? – Hugarfarsbreytingar er þörf“. Kom fram í máli formanns að ríkið ætti að huga betur að fjármálum sínum og þyrfti að greina betur hvort það borgi sig alltaf að ráða starfsmann frekar en að úthýsa fleiri verkefnum og kaupa þjónustu frá utanaðkomandi sérfræðingum.
Ken Hughes, sérfræðingur í neytenda- og kauphegðun, sló síðan botninn í ráðstefnuna með frábæru erindi undir yfirskriftinni“Shopper Marketing & Shopper Centricity“. Í erindi sínu sýndi Ken ráðstefnugestum hvað það er sem fær neytendur til að kaupa og hvernig er hægt að fá þá til að kaupa meira.
Kynning Margrétar Sanders, formanns SVÞ
Myndir frá ráðstefnu
Myndband – nokkrar staðreyndir um mikilvægi verslunar og þjónustu