Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu, varar við að fyrirhugaðar breytingar á frumvarpi til laga um kílómetragjald gætu leitt til aukins flækjustigs og kostnaðar, sérstaklega m.t.t. vöruflutninga. Þetta kemur fram í nýrri grein Benedikts þar sem hann greinir frá áhyggjum sínum vegna áforma stjórnvalda um að skipta út eldsneytissköttum fyrir víðtækt kílómetragjald.

Í greininni bendir Benedikt á að núverandi kerfi eldsneytisskatta hafi verið álitið einfalt, skilvirkt og sanngjarnt, þar sem þeir sem nota meira eldsneyti greiða meira. Með fyrirhugaðri breytingu, þar sem kílómetragjald verður lagt á alla bíla, óháð eldsneytistegund, skapast verulegar flækjur fyrir rekstraraðila vöruflutningabíla.

„Rekstraraðilar vörubíla munu þurfa að halda utan um skráningu fjölmargra bíla sem er ekið af mörgum bílstjórum. Þar sem kílómetragjald á bílana og eftirvagnana verður hátt mun nákvæmt utanumhald og regluleg skráning skipta sköpum,“ segir Benedikt í greininni.

Benedikt lýsir einnig áhyggjum sínum af því að nýja fyrirkomulagið auki álag á fyrirtæki og ríkissjóð þar sem eftirlit og skráningarkröfur verði flóknari. Hann varar við að rekstraraðilar vörubíla gætu lent í miklum viðbótarkostnaði og að aukinn rekstrarkostnaður skili sér að lokum í hærra verði.

SVÞ mun halda áfram að fylgjast með þróun málsins og beita sér fyrir skýru og sanngjörnu fyrirkomulagi sem tekur tillit til hagsmuna aðildarfyrirtækja samtakanna. Fyrirtæki eru hvött til að fylgjast með og kynna sér áhrif breytinganna á rekstur.

SMELLTU HÉR til að lesa alla greinina.
SMELLTU HÉR fyrir frétt á VB.is