Á næstu einni til tveimur vikum ætlar Alþingi að fá lagagildi fjárlagafrumvarpi 2025 ásamt fylgitunglum.
Meðal fylgitunglanna er frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra til laga um kílómetragjald, 7 milljarða
kr., skattahækkunarjólapakki fyrir næsta ár og tugmilljarða skattapakki til jóla næstu ára.
Jólagjöfin er kynnt undir formerkjum nokkurs konar dyggðar. Með hana eiga þegnarnir að vera
ánægðir þar sem henni er ætlað að leiða til jafnræðis, allir borgi. Gjöfin er svo skreytt með borða, u.þ.b.
100% hækkun kolefnisgjalds.

Máttlaus önd
Ríkisstjórnin er starfsstjórn eftir að einn stjórnarflokkanna boðaði skilnað í vor, annar ákvað að þá réttast að slíta sambandinu strax og var
í kjölfarið kallaður svikari. Þriðja flokknum finnst þetta vandræðalegt. Sumir ráðherrar skilnaðarstjórnarinnar gegna enn hlutverki sem embættismenn en eru sem slíkir
ekki í pólitísku hlutverki. Aðrir eruað gera eitthvað allt annað. Erlendis eru starfsstjórnir á ensku nefndar lame duck, máttlaus önd. Upprunalega voru orðin notuð til að lýsa önd sem getur ekki
haldið í við andahópinn og verður af þeim sökum skotspónn ránfugla. Seinna meir voru orðin notuð til að lýsa ógjaldfærum fyrirtækjum og einstaklingum. Á síðari tímum hafa orðin
máttlaus önd verið notuð til að lýsa því pólitíska samhengi þegar þing eða ríkisstjórn missa mátt sinn, t.d. í aðdraganda kosninga.

Er sælla að gefa en þiggja?
Skammur tími er frá því að drög að jólagjöfinni voru kynnt og enn skemmra síðan hún var afhent Alþingi til útdeilingar. Nú er orðið ljóst
að hún er til allra þegnanna. Jólagjöfin leiðir til þess að fyrirtæki sem annast flutning á fiski, matvöru, heyrúlluplasti, skepnufóðri og iðnaðarvöru munu þurfa að huga að því hvernig þau geta mætt 8-10% hækkun
rekstrarkostnaðar á næsta ári og sennilega um 15% hækkun árið 2027. Til viðbótar munu fyrirtækin standa frammi fyrir sambærilegri áskorun vegna hækkandi rekstrarkostnaðar eigin véla og tækja ásamt auknum rekstrarkostnaði þeirra sem veita fyrirtækjunum þjónustu. Skreyting gjafarinnar ber hins vegar vott um glamúr. Hver vill ekki að rekstrarkostnaður strandsiglinga hækki í ofanálag líka fyrst menn eru á annað borð byrjaðir að gefa? Í því samhengi er best af öllu að sú hækkun kemur til viðbótar sambærilegum álögum frá ESB. Gjöf sem heldur áfram að gefa. Allir vita að kostnaðarhækkanir leiðast í ríkum mæli út í verðlagningu. Hækkandi verðlagning hækkar
verðlag, m.a. verðlag á mat og öðrum nauðsynjum. En sanngirni er dyggð er það ekki?

Hangið kjöt
Þegar fjármála- og efnahagsráðherra kynnti jólagjöfina fyrir Alþingi gaf hann til kynna að hún gæti lækkað húsnæðisreikninga allra. Þunnu
hljóði muldraði hann hins vegar að hann vissi ekki alveg hvernig Hagstofan mundi bregðast við. Nú eru viðbrögðin komin í ljós því Hagstofan skaut öndina og nú hangir
hún til meyrnunar. Andfætlingar raunhagkerfisins á fjármálamarkaði andvörpuðu. Alþingi ætlar að ljúka afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins og fylgihnatta
um miðjan nóvember. Samkvæmt orðum sem hafa fallið í viðtölum verður unnið eftir þeirri meginreglu að afgreiða málin eins og þau eru lögð fram.

Koma jólin?
Þingmenn geta varla beðið eftir að losna við þingstörfin, komast á kosningaferðalag og halda svo jólin. Þeir mega þó ekki gleyma því að
þeirra hlutverki er ekki lokið því það er m.a. þeirra að passa upp á að jólapakkarnir innihaldi raunverulegar gjafir og en ekki kartöflur og
ýsubein. Undir þessum kringumstæðum vil ég segja við þingmenn: Við vitum að þið eruð í spreng en þetta er
ekki rétti tíminn til að segja „þetta reddast“.


Benedikt S. Benediktsson
Höfundur er framkvæmdastjóri SVÞ
– Samtaka verslunar og þjónustu