Nýjustu tölur frá Rannsóknasetri verslunarinnar sýna að erlend netverslun heldur áfram að aukast, með verulegum áhrifum á íslenska markaðinn.
Samkvæmt nýjustu netverslunarvísum Rannsóknaseturs verslunarinnar (RSV) hafa Íslendingar eytt yfir 27 milljörðum króna í erlendar netverslanir á fyrstu níu mánuðum ársins 2024, sem er umtalsverð aukning frá 19 milljörðum á sama tímabili í fyrra. Ef þessi þróun heldur áfram er spáð að heildarútgjöld ársins nái hátt í 44 milljörðum króna, sem nálgast upphæðina sem erlendir ferðamenn vörðu hér á landi í júlí, um 48 milljörðum króna samkvæmt tölum frá Seðlabanka Íslands.
14% aukning á erlendri netverslun á milli mánaða.
Í september einum saman námu innkaup Íslendinga í erlendum netverslunum 4,34 milljörðum króna, sem er 14% aukning frá ágúst – sem sjálfur var metmánuður. Þessi viðvarandi vöxtur endurspeglar að breytingar eru á neysluhegðun landsmanna, sérstaklega þar sem erlendar netverslanir hafa aukið aðgengi sitt með ódýrari dreifingarleiðum.
Eistland: risastór netverslunarmiðstöð Ali Express og Temu.
RSV vekur athygli á verulegri aukningu í netverslun frá Eistlandi, sem hefur rokið upp í um 2 milljarða króna í september og nam þannig yfir 45% af allri erlendri netverslun Íslendinga í þeim mánuði. Þessi þróun er meðal annars rakin til nýrra dreifingarmiðstöðva stórfyrirtækja eins og Ali Express og Temu.
Nánari greiningar fyrir fyrirtæki
Fyrir þau fyrirtæki sem vilja kafa dýpra býður RSV ítarlegri greiningar með upplýsingum úr Veltunni (veltan.is) sem flokkaðar eru eftir tollgögnum, tolllínum og sendingarlöndum.
Þetta gagnasafn nýtist vel fyrir íslensk fyrirtæki sem vilja átta sig á þróun netverslunar og undirflokka sem tengjast erlendri verslun.
Smelltu HÉR fyrir allar fréttir frá RSV.