Sara Dögg Svanhildardóttir, formaður Samtaka sjálfstæðra skóla, skrifar á Vísi fimmtudaginn 5. desember sl.
Niðurstöður í alþjóðlegu Pisa-könnuninni valda vonbrigðum. Enn á ný vefst lesskilningur, túlkun og ályktunarhæfni fyrir íslenskum nemendum. Skýringa er leitað og nefnt að ekki sé farið nógu djúpt í viðfangsefnin í skólanum; skólakerfið svamli um á yfirborðinu. Er það kannski svo að kerfið sjálft sé statt á endastöð einhvers konar sjálfskapaðrar tilvistarkreppu? Niðurnjörvað í úreltum kjarasamningum fortíðar, sem eru fyrir óralöngu hættir að ríma við nútímann? Mæling kennslustunda upp á mínútur hér og þar virðist upphaf og endir allra kjarasamninga. Ekkert flæði, ekkert svigrúm, engin nýsköpun í uppbyggingu skólanna. Allir skulu mótast í nákvæmlega sama mót. Allir grunnskólar á Íslandi, alls staðar, bjóða upp á allt eins.
Þessi lýsing er mögulega nokkuð harðorð í garð kerfisins en það er full ástæða til að taka djúpt í árinni. Við hjá Samtökum sjálfstæðra skóla höfum talað fyrir sveigjanleika, nýsköpun og frelsi til athafna og á okkur hafa sumir viljað hlusta en svo sannarlega ekki allir. Sjálfstæðir skólar þykja með einhverjum óskiljanlegum hætti ógna kerfinu. Þessu svifaseina kerfi, sem virðist að mörgu leiti komið í þrot.
Við hjá Samtökum sjálfstæðra skóla teljum mikilvægt að búa við fjölbreytta skóla. Skóla sem þora að fara út fyrir hefðbundinn ramma og gefa þannig foreldrum meira vald til ákvarðana. Raunverulegt val um hvað hentar börnum þeirra best hverju sinni. Í skólakerfinu, rétt eins og annars staðar, hentar ekki öllum að vera felldir í sama mótið. Sjálfstæðir skólar hafa annars konar nálgun á menntun en hefðbundna skólakerfið. Sjálfstæðir skólar hafa sýnt frumkvæði og getu til breytinga og sýna það og sanna að nýsköpun og drifkraftur skiptir máli fyrir alla. Kennara jafnt sem nemendur. Og það er lykilfólkið í menntakerfinu, þegar öllu er á botninn hvolft. Grundvallaratriði er að nemendum farnist vel og að kennurum sé skapað rými og tími til athafna. Sjálfstæðir skólar á Íslandi eru afar fáir og miklu færri en þeir ættu að vera. Aðeins rúm 2% grunnskóla hér á landi eru sjálfstætt starfandi skólar, en svo lágt hlutfall er hvergi að finna í nágrannalöndum okkar, þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við og þar sem útkoman í Pisa-könnunum telst góð.
Sjálfstæðir skólar á Íslandi eru fámennir, faglegir og framsæknir. Allt gríðarlegir kostir þegar kemur að því að ná til allra nemenda, hafa yfirsýn og veita hefðbundna kerfinu einhvers konar viðmið eða samanburð. Sjálfstæðir skólar eru hvatning til annarra að fara nýjar leiðir til að breyta kerfinu til batnaðar og rjúfa vítahring endurtekninga.
Við þurfum fjölbreytni og frelsi svo foreldrar geti tekið upplýsta og meðvitaða ákvörðun um skólaval. En ekki síður til þess að kennarar hafi val um ólíkt starfsumhverfi og geti hrist af sér þann doða sem getur svo auðveldlega skapast í kerfi sem er ætlað að vera eins fyrir alla.
Af hverju eru enn svo fáir sjálfstætt starfandi skólar? Við hvað erum við hrædd? Varla óttumst við lélega útkomu í Pisa-könnunum? Væri ekki nær að viðurkenna að við þurfum að rétta þá skekkju í skólakerfinu, sem veldur því að nemendur ná ekki allir að blómstra? Sjálfstæðir skólar geta uppfyllt þarfir þeirra, sem finna sig ekki í hefðbundnu skólakerfi. Og hver veit nema niðurstöður í Pisa-könnunum færu þá batnandi.