Eftirfarandi grein eftir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóra SVÞ, birtist í Morgunblaðinu fimmtudaginn 19. desember sl.:

Eitt af síðustu verkum þingheims fyrir jólafrí var að samþykkja lög um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um tollkvóta fyrir innfluttar landbúnaðarafurðir. Helsta markmið frumvarpsins var að koma úthlutunarreglum tollkvótanna í það horf að verð innfluttra landbúnaðarvara gæti lækkað, íslenskum neytendum til hagsbóta. Vegna þeirra lagareglna sem gilt hafa hingað til hafa neytendur ekki notið markverðs ábata af innfluttum landbúnaðarvörum, jafnvel þó að þær megi í sumum tilvikum flytja inn á lægri tollum en ella. Frumvarpið hafði alla burði til að breyta þessari stöðu, bæði hvað varðar úthlutunaraðferðir og opnunartímabil tollkvóta fyrir vörur sem hér hefur oft og tíðum skort. SVÞ lýsti yfir stuðningi við frumvarpið þar sem með samþykkt þess hefði verið stigið skref í rétta átt.

Þegar leið að því að frumvarpið yrði afgreitt úr þingnefnd, gerðist sá fáheyrði atburður að ellefu félög hagsmunaaðila ályktuðu gegn frumvarpinu. Fyrir utan Bændasamtök Íslands og ýmis aðildarfélög þeirra, stóðu að ályktuninni Félag atvinnurekenda og Samtök iðnaðarins. Til grundvallar ályktuninni voru færð afar mótsagnakennd rök, þ.e. að finna þyrfti málinu heppilegri farveg, m.a. til að bregðast við mögulegum frávikum sem alltaf kunna að koma upp í búvöruframleiðslu, sem háð er veðurfari og öðrum ytri aðstæðum. Neytendasamtökin sáu góðu heilli að sér og drógu þátttöku sína í ályktuninni til baka. Þingheimur skákaði í skjóli þessa atburðar og gerði víðtækar breytingar sem taka mjög mið af sérkröfum innlendra framleiðenda og eru alfarið  á kostnað neytenda.

Maður hefði nú að fyrra bragði ekki búist við að samtök á borð við Félag atvinnurekenda og Samtök iðnaðarins sem, í orði kveðnu a.m.k., haldið hafa á lofti sjónarmiðum viðskiptafrelsis og frjálsrar samkeppni, sameinist um að leggja stein í götu frumvarps, sem hafði það að raunverulegu markmiði að færa íslenskum neytendum ábata upp á fleiri hundruð milljónir króna á ári.

Það er til kínverskur málsháttur sem segir: Það heyrist jafnan meira í því sem þú gerir en í því sem þú segir. Vörslumenn sérhagsmuna leynast greinilega víðar en margur heldur.