Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, var í Reykjavík síðdegis föstudaginn 27. nóvember og ræddi m.a. verslun á svörtum föstudegi og áhrif sóttvarna á verslunina. Samtök atvinnulífsins kalla eftir meira samræmi í sóttvarnarreglum og SVÞ hefur ítrekað gagnrýnt að verslanir í stóru húsnæði, sem ekki selja matvöru eða lyf, mega eingöngu hafa 10 manns inni, á meðan t.d. lítil apótek mega hafa 50 manns.
Hann ræddi einnig hugmyndir um sykurskatt og sagði slæma reynslu hafa verið af sykurskatti 2009-2013. Það hafi verið flókin skattheimta og ógagnsæ sem t.d. skapaði 3 auka stöðugildi hjá Tollstjóranum í Reykjavík til að halda utanum þennan skatt. SVÞ er alfarið á móti því að stýra neyslu með skattheimtu. Mikið nær sé að hvetja fólk til breyttra lífshátta. Rannsóknir og dæmi úr ýmsum löndum sýna að sykurskattur hefur ekki þau áhrif sem vonast er eftir.