Fréttatilkynning send til fjölmiðla 5.12.2016
Í kjölfar fréttaumfjöllunar um eftirlit Matvælastofnunar (MAST) með tilteknum eggjaframleiðanda, þar sem sú starfsemi stóðst ekki þær kröfur sem gerðar eru til hennar s.s. hvað varðar aðbúnað dýra og villandi upplýsingar, er ljóst að stofnunin brást alfarið eftirlitshlutverki sínu. Þrátt fyrir að starfsemin hafi verið til skoðunar hjá MAST í tæp tíu ár og aðfinnslur hafi verið gerðar við þá starfsemi var hvorki verslun né neytendum veittar upplýsingar um þá meinbugi sem nú hafa komið í ljós.

Með þögn sinni um málið hefur MAST vegið alvarlega að hagsmunum verslana og neytenda sem í skjóli núverandi fyrirkomulags treysta á faglega starfsemi þeirra aðila sem lögum samkvæmt hefur verið falið eftirlit með matvælaframleiðslu. Á meðan engar athugasemdir berast frá eftirlitsaðila um tiltekna starfsemi eru verslun og neytendur því í góðri trú um að þau matvæli standist allar þær kröfur sem gerðar eru til hennar. Ítrekast einnig að upplýsingar um framleiðslu matvæla eru mikilvægur þáttur í upplýstu vali neytenda á matvælum sem og hvaða vörur verslun er tilbúin að hafa á boðstólum.

Umfjöllun undanfarið hefur orðið til þess fallin að vekja upp áleitnar spurningar um matvælaeftirlit MAST og það traust sem á að ríkja um eftirlitsstarfsemi stofnunarinnar. Þá er gagnrýnisvert að hagsmunir innlendrar matvælaframleiðslu hafi alfarið vikið til hliðar hagsmunum neytenda og verslana af því að fá upplýsingar um eftirlitsskylda starfsemi og þær vörur sem frá þeirri starfsemi berast. Að óbreyttu er nú uppi viðvarandi brestur í trausti hagsmunaaðila hvað varðar eftirlit með matvælaframleiðslu, sér í lagi þar sem MAST hefur heimilað afhendingu á matvælum til verslana og neytenda þrátt fyrir að búa yfir upplýsingum um margvísleg brot gegn löggjöf um matvæli og aðbúnað dýra.

Í ljósi þessa hafa Neytendasamtökin og SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu sent sameiginlegt erindi á MAST þar sem óskað er upplýsinga frá stofnuninni um öll alvarleg frávik í innlendri eftirlitsskyldri matvælaframleiðslu sem hún hefur gert athugasemdir við í eftirlitsstörfum sínum. Er óskað eftir upplýsingum aftur til 1. janúar 2008. Telja Neytendasamtökin og SVÞ mikilvægt að afla þessara gagna enda hefur umfjöllun um eftirlit MAST leitt í ljós að réttur almennings til upplýsinga er verulega takmarkaður er viðkemur matvælaframleiðslu og frávikum frá kröfum sem gera verður til slíkrar framleiðslu.

Fréttatilkynning á pdf sniði.