„Við sjáum fyrir okkur að gríðarleg flækja geti fylgt breytingum á kílómetragjaldi“ segir Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ, í samtali við Morgunblaðið í dag, 3. júní.
Í fréttinni er fjallað um hvort mögulegt verði að leggja kílómetragjald á erlend ökutæki, t.d. ökutæki í eigu ferðamanna og erlendra fyrirtækja. SVÞ telja líkur á að þegar upp verðir staðið geti reynst erfitt að leggja gjaldið á þessi ökutæki þar sem álagningin geti stangast á við regluverk EES-samningsins.
„Við veltum því fyrir okkur hvort skattlagning á erlend ökutæki verði lögmæt“ segir Benedikt.
SVÞ leggur áherslu á að vanda þurfi til verka við afgreiðslu frumvarpsins. Mikilvægt sé að tryggja að skattlagningin verði skilvirk, leggi ekki þungar kvaðir á herðar atvinnurekendum, tryggt verði að hún verði framkvæmanleg og síðast en ekki síst að auknar tekjur renni sannarlega til vegamála. Samtökin minna á mikilvægi þess að skattlagning og opinber gjöld rýri ekki samkeppnishæfni fyrirtækja á sviði verslunar og þjónustu.