Einkarekstur eða opinber

Blaðagrein birt í Viðskiptablaðinu 23.6.2016
Höfundur: Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu
Fyrir nokkrum árum mætti Jón Gnarr, þá sem uppistandari, á jólafund SVÞ og ræddi um þjónustu. Hann rifjaði m.a. upp þá þjónustu sem menn urðu aðnjótandi hjá Bifreiðaeftirliti ríkisins, meðan sú stofnun var og hét og hjá áfengisversluninni við Snorrabraut, þar sem misjafnlega upplagðir starfsmenn í bláum vinnusloppum afgreiddu áfengið yfir búðarborð. Lýsingar Jóns voru með þeim hætti að menn veltumst um af hlátri þann klukkutíma sem uppistandið stóð yfir. Þó að tilgangur þessa fundar hafi fyrst og fremst verið að skemmta félagsmönnum SVÞ í amstri jólanna, var hann þörf áminning um að það er ekki sjálfgefið að fólk fái óaðfinnanlega þjónustu hjá þeim fyrirtækjum og stofnunum sem það á viðskipti við. Eitt er víst að það hvarflaði ekki að neinum sem sat þennan fund að endurvekja Bifreiðaeftirlit ríkisins eða byrja á ný að afgreiða áfengi yfir búðarborð.

Breytt viðhorf, en…
Viðhorf til rekstrar hins opinbera hefur breyst mikið á undanförnum árum. Lengi vel var litið svo á að aðeins ríkið gæti annast tiltekin verkefni, á þeirri forsendu að það eitt byggi yfir nægjanlegri þekkingu og mannafla og nauðsynlegu skipulagi til að stýra verkefnum. Lengi vel var nefnilega litið svo á að aðeins ríkið gæti innt af hendi þau verkefni sem áður voru á hendi stofnana á borð við Bifreiðaeftirlit ríkisins. Það er hins vegar langur vegur frá því að þessi almenna viðhorfbreyting hafi leitt til þess að ríkið hafi í nægjanlegum mæli dregið sig út úr starfsemi sem það hefur sinnt. Einkareknar stofur hafa hérlendis í tvo áratugi annast mörg þau verkefni sem áður hvíldu á herðum hins opinbera, s.s. á sviði bifreiðaskoðana, matvælaskoðana, rafskoðana, skipaskoðana og löggildinga mælitækja auk markaðsgæslu, og hafa þessi fyrirtæki því fyrir löngu sannað gildi sitt sem öruggur og hagkvæmur kostur á þeim sviðum sem áður voru eyrnamerkt hinu opinberra. Þrátt fyrir fögur fyrirheit stjórnvalda, virðast allar frekari breytingar á þessu sviði gerast með hraða snigilsins. Þrátt fyrir að þjónusta þeirra fyrirtækja sem nú sinna þeim verkefnum sem Bifreiðaeftirlit ríkisins sinnti áður, sé almennt óumdeild, gerast hlutirnir ótrúlega hægt.

Tækifærin eru víða
Þær skipta tugum þær stofnanir sem sinna verkefnum sem  frekar ættu að vera falin einkaaðilum. Hér má nefna sem dæmi starfsemi stofnana á borð við MAST, Fiskistofu, Vinnueftirlitsins og Neytendastofu. Ekkert bendir til annars en að stór hluti af þeirri starfsemi sem þessar stofnanir sinna, væri betur komin í höndum einkaaðila. Einkaaðilar starfa þar að auki upp til hópa eftir ströngum kröfum alþjóðlegra staðla um hlutleysi, verkferla og samræmi í framkvæmd verka – kröfur sem á tíðum eru strangari en hjá hinu opinbera. Allar þessar stofnanir sinna verkefnum er snúa með einhverjum hætti að öryggi borgaranna og þar sem opinbert eftirlit með öryggismálum bifreiða okkar hefur verið fært til einkaaðila, hlýtur að koma mjög sterklega til álita að færa einkaaðilum verkefni af sama toga enda búa þeir yfir nægjanlegri þekkingu, mannafla og nauðsynlegu skipulagi til að stýra verkefnum á við hið opinbera og gott betur.

Einkarekstur eða opinber – Viðskiptablaðið 23.6.2016