Í sérstöku áramótablaði Viðskiptablaðsins undir liðnum Uppgjör 2025 fer Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ og Bílgreinasambandsins, stuttlega yfir stöðu atvinnulífsins við lok ársins og helstu áskoranir sem blasa við á komandi ári.
Þar kemur fram að þrátt fyrir áframhaldandi efnahagslegar áskoranir hafi staða margra fyrirtækja batnað eftir áföll heimsfaraldursins. Verðbólga og hátt vaxtastig hafi þó haft áhrif á rekstur og dregið úr bjartsýni, einkum þegar horft er til næstu missera.
Í greininni er einnig fjallað um stöðu neytenda, þar sem kaupendur hafi sýnt nokkra seiglu þrátt fyrir þrengri efnahag, og um þróun í lykilgreinum verslunar og þjónustu. Þá er bent á að horfur í útflutningsgreinum séu háðar alþjóðlegu efnahagsástandi og þróun á erlendum mörkuðum.
Benedikt leggur sérstaka áherslu á að fyrirsjáanleiki í stefnu stjórnvalda skipti sköpum fyrir fyrirtæki þegar kemur að fjárfestingum, mannauðsmálum og langtímaáætlanagerð. Fyrirhugaðar skattabreytingar og auknar álögur geti haft veruleg áhrif á einstakar greinar, þar á meðal bílgreinina, ef ekki er gætt að heildaráhrifum.
Að lokum er áréttað að næstu misseri verði afgerandi fyrir samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Með skýrari leikreglum, raunhæfri stefnumótun og nánu samstarfi stjórnvalda og atvinnulífs sé unnt að byggja áfram á þeirri seiglu sem fyrirtæki hafa sýnt á árinu 2025.
👉 Lesa greinina í heild sinni í Viðskiptablaðinu: HÉR!