Jón Ólafur Halldórsson, formaður SVÞ, skrifar í Morgunblaðið laugardaginn 4. apríl:

Eins og margoft hefur verið sagt á undanförnum vikum er það sameiginlegt viðfangsefni okkar allra að komast í gegn um þann skafl sem við blasir. Og þó að sá vetur sem brátt kveður hafi flutt til okkar fleiri óveðurslægðir en tölu verður á komið, þá var glíman við snjóskafla vetrarins barnaleikur í samanburði við þær appelsínugulu heilsufars- og efnahagslegu viðvaranir sem við nú horfumst í augu við.

Við Íslendingar höfum áður þurft að glíma við erfiðleika og oftast leyst þá með prýði. Við ætlum að gera það einnig núna, enda má segja að við séum hokin af reynslu í þeim efnum. Langflest berum við fullt traust til þess fólks sem skipar framvarðarsveitina og vísar okkur veginn, enda nálgast þau verkefni sitt af yfirvegun og hæfilegri festu. Við höfum einnig fulla ástæðu til að hafa trú á sjálfum okkur og framtíð okkar, enda höfum við aldrei verið eins vel í stakk búin til að takast á við áföll og nú.

Við þessar aðstæður skiptir miklu að allir sem eiga þess kost haldi áfram sínu daglega lífi. Þar með talið að eiga þau viðskipti við verslanir og önnur þjónustufyrirtæki sem hver og einn telur nauðsynleg. Með því móti leggjum við okkar að mörkum til að draga úr neikvæðum afleiðingum þess faraldurs sem á okkur dynur. Með því móti leggjum við einnig okkar að mörkum til að gera þeim fjölmörgu fyrirtækjum sem nú glíma við mikinn vanda, auðveldara að komast í gegn um erfiðleikana. Þar er sannarlega til mikils að vinna.

Sóttkví eða aðrar ástæður sem gera fólki ómögulegt að fara út úr húsi er þarna engin hindrun. Netverslun og heimsending er mál málanna við þessar aðstæður, enda er fjöldinn allur af verslunum og öðrum þjónustuaðilum farin að bjóða upp á slíkt. Ört stækkandi hópur neytenda nýtir sér þá þjónustu og leggur þar með sitt lóð á vogaskálina við að halda hagkerfinu gangandi.

Sýnum í verki samtakamátt okkar og skiptum við íslensk fyrirtæki. Með því hjálpum við fyrirtækjunum að komast yfir erfiðasta hjallann og leggja þar með grunn að kröftugri viðspyrnu atvinnulífsins þegar aftur birtir til.