Óljós áform um skattahækkanir á ökutæki og eldsneyti

Í frétt Morgunblaðsins í dag, 24. september, kemur fram að í fjárlagafrumvarpi næsta árs sé gert ráð fyrir 7,5 milljarða króna tekjuöflun undir liðnum „endurskoðun á skattlagningu ökutækja og eldsneytis“.

Samkvæmt fréttinni er óljóst hvernig áform stjórnvalda eru útfærð, en flest bendir til þess að auknar tekjur verði sóttar með hækkun vörugjalda á ökutæki.

Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ, segir að áformin séu bæði óljós og illa tímasett:

„Í fjárlagafrumvarpinu er boðuð mjög mikil skattahækkun á almenning og fyrirtæki. Óljóst er hvaða breytingar eigi að ráðast í til að afla þeirra 7,5 milljarða sem eru merktir sem endurskoðun á skattlagningu ökutækja og eldsneytis. Flest bendi til að það fé eigi að sækja með hækkun vörugjalda af ökutækjum. Þetta er hrikalegur tímapunktur til að koma fram með svo óljós áform þar sem innflytjendur eru einmitt um þessar mundir að skila innkaupaáætlunum vegna næsta árs.“

SVÞ telur brýnt að stjórnvöld útskýri skýrt hvernig þau hyggjast standa að slíkri skattheimtu og hvaða áhrif hún muni hafa á markaðinn. Óvissa af þessu tagi torveldar áætlanagerð fyrirtækja og getur grafið undan stöðugleika í atvinnulífinu á viðkvæmum tíma.

Fjárlagafrumvarp-hrun-bílasölu
  • Facebook
  • Twitter
  • Gmail
  • LinkedIn