Fyrirtæki í verslun og þjónustu undir pressu.
Ný könnun Samtaka atvinnulífsins (SA) sýnir að stjórnendur stærstu fyrirtækja landsins hafa auknar áhyggjur af rekstraraðstæðum á næstu mánuðum. Fyrirtæki í verslun og þjónustu eru meðal þeirra sem vissulega finna fyrir álaginu, þar sem hækkandi verðbólga, launakostnaður og breytt neyslumynstur hafa þrengt að mörgum rekstraraðilum.
Fjárfestingar dragast saman
Niðurstaða könnunarinnar sýnir m.a. að fjárfestingavísitalan sem vísar til breytinga í fjárfestingu á milli ára hefur ekki verið lægri í rúm þrjú ár. 34% stjórnenda gera ráð fyrir minni fjárfestingu í ár samanborið við árið áður, 21% gera ráð fyrir meiri fjárfestingu og 45% áætla að fjárfesting verði óbreytt milli ára. Fjárfestingar dragast mest saman í verslun og ýmissi sérhæfðri þjónustu en eykst mest í samgöngum, flutningum og ferðaþjónustu, fjármála- og tryggingastarfsemi og sjávarútvegi.
Launahækkanir helsti áhrifaþáttur verðlagsbreytinga
Sem fyrr telja stjórnendur að launahækkanir séu megin áhrifaþáttur verðhækkana hjá fyrirtækjunum sem þeir stýra. 52% stjórnenda setja launakostnað í fyrsta sæti sem verðhækkunartilefni, sem er þó lækkun um 17 prósentustig frá síðustu könnun. Hækkun aðfangaverðs er afgerandi í öðru sæti þar sem 24% stjórnenda telja að aðföng hafi mest áhrif. Aðrir þættir vega talsvert minna.
Skortur á starfsfólki fer minnkandi
Skortur á starfsfólki fer minnkandi á milli kannana en 73% stjórnenda telja sig ekki búa við skort á starfsfólki, samanborið við 69% í síðustu könnun. Skorturinn er minnstur hjá fyrirtækjum í fjármála- og tryggingastarfsemi en sem fyrr mestur í byggingariðnaði.
Smelltu hér til að lesa alla fréttina inná vef SA.is