Tillögur um breytingar á stuðningi við kaup á rafbílum, sem kynntar voru í frétt á Vísi í dag, gætu haft óvæntar neikvæðar afleiðingar fyrir framgang orkuskipta. Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu, bendir þar á mikilvægi þess að styrkjakerfið styðji við raunverulegan árangur, ekki aðeins réttlætissjónarmið.

Í fréttinni á Visir.is er fjallað um endurskoðun stjórnvalda á því hvernig styrkir til rafbílakaupa eru veittir. Ný úttekt sýnir að stuðningurinn hefur að mestu runnið til tekjuhærri hópa og þeirra sem eru yfir miðjum aldri. Nú stendur til að færa stuðninginn nær tekjulægri og yngri kaupendum.

„Tilfærsla á styrkjum til hópa í lægri tekjutíundum og yngra fólks mun því ekki skila losunarsamdrætti en gæti hins vegar dregið úr kaupum eldra fólks og fólks í efri hluta tekjutíundanna. Þar með mundi draga úr hraða orkuskipta, að minnsta kosti að sinni,“ segir Benedikt.  Hann varar við því að ef styrkirnir verða eingöngu sniðnir að hópi sem sjaldnar kaupir nýja bíla, gæti það dregið úr innflutningi og þannig takmarkað framboð á notuðum rafbílum til framtíðar.

SVÞ leggja áherslu á að orkuskipti krefjist stefnumótunar sem tekur mið af markaðsvirkni, hagkvæmni og raunhæfum aðstæðum neytenda. Nauðsynlegt er að styðja við þá sem raunverulega geta hrundið breytingum af stað. Þá hvetur SVÞ stjórnvöld til samráðs við hagaðila áður en breytingar eru gerðar á styrkjakerfinu.

Markmiðin verða að vera skýr: að flýta orkuskiptum og tryggja að rafbílavæðing Íslands verði bæði hraðari og sanngjörn.