Rannsóknasetur verslunarinnar (RSV) spáir 0,29% samdrætti í smásöluverslun um jólin á föstu verðlagi.

Rannsóknasetur verslunarinnar (RSV) spáir 0,29% samdrætti í smásöluverslun um jólin á föstu verðlagi.

Rannsóknasetur verslunarinnar (RSV) spáir 0,29% samdrætti í jólaverslun 2023 miðað við fast verðlag.

Þrátt fyrir að Íslendingar hafi byrjað að versla fyrr vegna tilboðsdaga eins og Dagur einhleypra, Svartur föstudagur eða Rafrænn mánudagur, gefa hækkandi verðbólga og stýrivextir til kynna varfærnari neyslu.

Einkaneysla hefur hækkað um 12,9% á árinu, aðallega vegna hækkunar á vöruverði. Nýleg könnun RSV og Prósent sýna að Íslendingar hyggjast eyða 12.000 kr. minna í jólagjafir í ár en í fyrra, eða um 99.000 kr. á mann í stað 111.000 kr.

Lækkunin er hlutfallslega mest hjá eldri borgurum, en konur eru líklegri til að eyða meira en karlar.  Jólaverslun í ár er spáð að verði 135,9 milljarðar króna, en var 126,1 milljarður króna árið áður. RSV notar gögn um kaupmátt launa, vísitölu neysluverðs, kortaveltu, einkaneyslu og virðisaukaskattsskýrslur til spár sinnar.

Sjá nánar frétt inná vef Rannsóknasetur verslunarinnar: Spá um jólaverslun 2023 (rsv.is)

*Mynd frá RSV.is

Hæfnisþættir í grænni umbyltingu á norðurlöndunum

Hæfnisþættir í grænni umbyltingu á norðurlöndunum

Fimmtudaginn 23.nóvember s.l. tók María Jóna Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri BGS þátt í sérstökum norrænu málþingi í beinni fyrir hönd SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu, undir heitinu:

SKILLS NEEDED FOR THE GREEN TRANSITION FROM A NORDIC PERSPECTIVE AND EXISTING POLICIES IN THE NORDIC REGION

Aðaláherslan á þessum vef-viðburði, sem var á ensku, var að skoða hæfnisþörfina í grænum umbreytingum frá Norrænu sjónarhorni.

Í erindi Maríu Jónu kom m.a. eftirfarandi fram:

Hröð aðlögun að rafbílum á Íslandi:
María Jóna Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins undirstrikaði mikla breytingu í bílaiðnaði Íslands í átt að rafbílum og bílum með núllútblástur. Þá bendir hún á að 67,9% allra nýlega einkabíla keyptra á þessu ári eru rafbílar, og 99,6% af farþegabílaflota eru með núllútblástur. Þessi umbreyting krefst skjótrar þjálfunar bæði fyrir söluaðila og þjónustustarfsmenn til að aðlagast þessum nýju tækni.

Skilningur á fjórðu og fimmtu iðnbyltingunni:
Mikilvægi þess að skilja muninn á milli fjórðu (sem snýst um tækni, skilvirkni og sjálfvirkni) og fimmtu iðnbyltingarinnar (sem sameinar tækni við mannlega meðvitund og tilfinningagreind). Áhersla er lögð á þörfina fyrir leiðtoga til að vega og meta tækniframfarir með mannmiðuðum gildum til að aðlagast þessum breytingum á árangursríkan hátt.

Samstarf og samningur um hæfniþróun:
Talað var um samstarfssamning SVÞ og VR/LÍV um hæfnikröfur starfsfólks í verslunar og þjónustugreinum sem gerður var í mars s.l. Þessi samningur beinist að því að auka hæfni starfsfólks í smásölu- og þjónustugeiranum allt til ársins 2030. Markmiðið er að tryggja að 80% starfsmanna í þessum geirum taki þátt í reglulegri og viðvarandi þjálfun til að aðlagast hratt breytast vinnuumhverfi.

Stuðningur við mannauðinn sem talar íslensku sem annað mál:
Í samstarfssamningi SVÞ og VR/LÍV kemur einnig fram að sérstök áhersla er lögð á að bæta færni starfsfólks í smásölu- og þjónustufyrirtækjum sem tala íslensku sem annað tungumál. Þetta er hluti af stærra markmiði um að aðlaga vinnuafl að breyttum kröfum markaðarins.

Árlegar kannanir á hæfni og færni:
María Jóna talaði einnig um skuldbindingu SVÞ og VR/LÍV til að framkvæma árlegar kannanir til að meta mikilvægustu hæfnisþætti í nútíma og framtíðar vinnumarkaði. Þessar kannanir eru ætlaðar til að skilja sjónarmið bæði atvinnurekenda og starfsmanna um nauðsynlega færni, og tryggja samræmi í þjálfun og ráðningarvenjum til að m.a. auðvelda græna umbreytingu.

Umhverfisverðlaun atvinnulífsins & framtak ársins 2023

Umhverfisverðlaun atvinnulífsins & framtak ársins 2023

Umhverfisverðlaun atvinnulífsins voru tilkynnt við hátíðlega athöfn á Umhverfisdegi atvinnulífsins í dag.

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, tilkynnti verðlaunin. Umhverfisfyrirtæki ársins er Landsvirkjun en framtak ársins á sviði umhverfismála á Carbon Recycling International.

Landsvirkjun

Umhverfisfyrirtæki ársins 2023

Landsvirkjun fer með umsjón mikilvægra náttúruauðlinda landsins og gerir það á ábyrgan og auðmjúkan hátt. Lögð er áhersla á að þekkja umhverfisáhrif starfseminnar, draga úr þeim og koma í veg fyrir frávik.

Fyrirtækið hefur verið með vottað umhverfisstjórnunarkerfi í hátt í 20 ár og hefur sýnt framsýni og forystu þegar kemur að útgáfu og birtingu umhverfisupplýsinga og aðgerða. Lögð er áhersla á að hámarka verðmæti þeirra auðlinda sem fyrirtækinu er falið með sjálfbærni og hagkvæmni að leiðarljósi. Þannig hefur fyrirtækið markvisst innleitt sjálfbæra nýtingu í starfsemi sína, hámarkað nýtni og dregið úr úrgangi og losun tengdri starfsemi sinni.

Fyrirtækið tekur hlutverk sitt og áhrif í samfélaginu alvarlega og gengur lengra en lög og reglur segja til um þegar kemur að áhrifum frá starfsemi fyrirtækisins. Landsvirkjun leggur áherslu á að styðja við alla virðiskeðju sína í loftslags vegferðinni. Fyrirtækið horfir út fyrir starfsemi sína þegar kemur að samdrætti í samfélagslosun og þeim áhrifum sem Landsvirkjun getur haft á heildarlosun Íslands. Fyrirtækið fékk fyrst íslenskra fyrirtækja hæstu einkunn fyrir stýringu eigin loftslagsáhrifa frá alþjóðlegu samtökunum CDP.

Landsvirkjun hefur sett sér markmið um nettó kolefnishlutleysi árið 2025 og var með fyrstu fyrirtækjum landsins að kynna markmið sín opinberlega. Fyrirtækið vinnur markvisst að því að draga úr kolefniskræfni raforkuvinnslu sinnar með metnaðarfullri aðgerðaráætlun og skýrum, tölulegum og tímasettum markmiðum sem eru aðgengileg öllum.

Þar að auki hefur Landsvirkjun nýtt sér framúrskarandi árangur í umhverfismálum til fjármögnunar með útgáfu grænna skuldabréfa fyrst íslenskra fyrirtækja. Því frumkvæði var tekið eftir, bæði erlendis og hérlendis og hafa mörg íslensk fyrirtæki fylgt í spor Landsvirkjunar með slíkum útgáfum.

Fyrirtækið er í forystu í loftslags- og umhverfismálum og má með sanni segja að aðgerðir og vinnubrögð endurspegli þann metnað og önnur fyrirtæki geti tekið sér Landsvirkjun til fyrirmyndar. Landsvirkjun ber því vel titilinn umhverfisfyrirtæki ársins 2023.

Jóna Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri Samfélags og umhverfis hjá Landsvirkjun, þakkaði verðlaunin og þá viðurkenningu sem í þeim fælist fyrir umfangsmikið starf Landsvirkjunar í umhverfis- og loftslagsmálum. „Í umhverfismálum þurfum við öll að vinna saman enda er ávinningurinn okkar allra og komandi kynslóða,“ sagði Jóna.

Meðfylgjandi er verðlaunamyndbandið sem sýnt var á Umhverfisdegi atvinnulífsins 2023 er Guðni Th. Jóhannesson veitti Landsvirkjun verðlaunin

Carbon Recycling International

Umhverfisframtak ársins 2023

Carbon Recycling International (CRI) hefur síðastliðin 15 ár skapað sér sérstöðu sem frumkvöðull við hagnýtingu á koltvísýringi á heimsvísu. Emissions-to-liquid (ETL) tækni félagsins umbreytir koltvísýringi og vetni í metanól sem nýta má sem rafeldsneyti eða sem hráefni í efnavinnslu og hefur mun minni umhverfisáhrif en hefðbundið jarðefnaeldsneyti.

Carbon Recycling International gangsetti nýlega nýja efnaverksmiðju í Kína sem hefur þann möguleika að endurnýta 150.000 tonn af koltvísýring á ári. Íslenskt hugvit og verkfræðileg hönnun CRI mun stuðla að einni bestu orkunýtni í þessari tegund iðnaðarframleiðslu og framleiða um 100.000 tonn af sjálfbæru metanóli á ári.

Framleiðslutæknin var þróuð og sannreynd í verksmiðju félagsins í Svartsengi. Félagið var þá fyrsta fyrirtækið í heiminum til að framleiða og selja vottað rafeldsneyti. Þrautseigja og framsýni Carbon Recycling. International hefur skilað áhrifum út fyrir landsteina og framtak þeirra mun leggja til í baráttu á heimsvísu við samdrátt í losun koltvísýrings.

Meðfylgjandi er verðlaunamyndbandið sem sýnt var á Umhverfisdegi atvinnulífsins 2023 er Guðni Th. Jóhannesson veitti CRI verðlaunin:

Það er ljóst á þeim fjölda tilnefninga sem bárust inn til umhverfisverðlauna Samtaka atvinnulífsins að umhverfis- og loftslagsmál eru sífellt að verða stærri hluti af daglegum rekstri og ákvarðanatöku fyrirtækja á Íslandi. Fjölmargar umsóknir bárust og fjöldi fyrirtækja vinna ötult starf á þessu sviði.

Í dómnefnd Umhverfisverðlauna atvinnulífsins sitja Sandra Rán Ásgrímsdóttir, formaður, Elma Sif Einarsdóttir og Reynir Smári Atlason.

Allt að helmingur jólaverslunar fer fram í nóvember

Allt að helmingur jólaverslunar fer fram í nóvember

Erlend uppskrift tilboðsdaga hefur afgerandi áhrif á verslun Íslendinga.

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ Samtaka verslunar og þjónustu sagði í kvöldfréttum RÚV í gær að tilboðsdagar að erlendri uppskrift hafi haft afgerandi áhrif á það hvernig Íslendingar versla fyrir jólin.

„Stærri og stærri hluti af jólaverslunar landans fer fram á þessum dögum. Og það er bara í takt við það sem er að gerast í löndunum í kringum okkur. Þetta kemur kannski meira afgerandi fram hjá okkur en sums staðar annars staðar,“ segir hann.

Allt bendi til þess að tilboðsdagar líkt og svartur föstudagur og stafrænn mánudagur sem nú eru í gangi hafi orðið til þess að stór hluti jólaverslunar landsmanna hafi færst inn í nóvember. Þetta sé þróun sem sé komin til að vera.

„Það er allt sem bendir til þess og þróunin hefur eindregið verið þannig undanfarin ár. Mælingin sem við gerum reglulega sýnir það afgerandi að fyrir kannski sjö, átta árum var eiginlega öll jólaverslun í desember“, segir Andrés.

„Undanfarin ár hefur þetta verið að þróast í þá átt að jafnvel helmingur af allri jólaverslun fer fram á þessum dögum.“

Sjá nánari frétt á RÚV.is 

Alþjóðleg samkeppnishæfni Reykjavíkurborgar

Alþjóðleg samkeppnishæfni Reykjavíkurborgar

Fyrsti Atvinnulífsfundur Reykjavíkurborgar var haldinn í Höfða 22.nóvember s.l. og tók Jón Ólafur Halldórsson, formaður SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu þátt fyrir hönd samtakanna.

Atvinnulífsfundur er liður í atvinnu- og nýsköpunarstefnu Reykjavíkurborgar, Nýsköpun alls staðar, sem snýr að því að skapa sameiginlega framtíðarsýn milli borgar og atvinnulífs um áskoranir og markmið. Helstu niðurstöður þessa fundar var að móta þarf sameiginlega framtíðarsýn, setja aukinn kraft í innviðauppbyggingu og efla stuðning við nýsköpun.

Fundurinn var í boði borgarstjóra og forseta borgarstjórnar í Höfða. Þar komu saman fulltrúar Reykjavíkurborgar, atvinnulífs, háskóla, klasa og verkalýðsfélaga og ræddu hvernig efla mætti alþjóðlega samkeppnishæfni Reykjavíkur og skapa borg þar sem nýsköpun þrífst.

Virkt samtal var meðal 36 þátttakenda undir fundarstjórn Guðfinnu Bjarnadóttur um þá þætti sem þyrfti að huga sérstaklega að til að skapa sannkallaða nýsköpunarborg.  Óhætt er að segja að almenn ánægja var með samtalið meðal fundargesta og mikill samhljómur um helstu áskoranir og næstu skref.

Gestir voru beðnir að forgangsraða verkefnum tengdum samkeppnishæfni úr atvinnu- og nýsköpunarstefnu og völdu þeir að leggja mesta áherslu á að setja aukinn kraft í innviðauppbyggingu, setja fram sameiginlega og skýra framtíðarsýn, auka stuðning við nýsköpun og efla klasasamstarf.

Forgangsröðun atvinnulífsfundar 2023

Sjá nánari frétt inná vef Reykjavikurborgar, hér!