Matarsóun íslenskra heimila og í smásölu og dreifingu mælist undir meðaltali í Evrópu

Matarsóun íslenskra heimila og í smásölu og dreifingu mælist undir meðaltali í Evrópu

Umhverfisstofnun birtir á vef sínum 29.september s.l. niðurstöðu mælingum stofnunarinnar á matarsóun á Íslandi. Þar kemur m.a. fram að matarsóun á Íslandi jafngildir um 160 kílóum á hvern íbúa á ári. Tæpur helmingur allrar matarsóunar á sér stað í frumframleiðslu matvæla en um 40% á heimilum.

Stofnunin hefur í fyrsta sinn mælt matarsóun í allri virðiskeðju matvæla eftir staðlaðri aðferðafræði Evrópusambandsins.

Ísland hefur sett sér markmið um að draga úr matarsóun, bæði sem hluti af aðgerðaáætlun í loftslagsmálum og sem hluta af framlagi okkar til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Lágmörkun matarsóunar er loftslagsmál, efnahagsmál og mikilvægur þáttur í innleiðingu hringrásarhagkerfisins.

Allar nánari upplýsingar um niðurstöður mælinga má fá inná vef Umhverfisstofnunar – sjá nánar hér.

Matarsóun í virðiskeðjunni 2023

Bendum einnig á að þann 24.október n.k. höldum við sérstaka málstofu um matarsóun og næstu skref á einstökum viðburði fyrir fólk og fyrirtæki í verslunar og þjónustugreinum innan SVÞ í samstarfi við Umhverfisstofnun og Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið.

Viðburðurinn er opinn öllu áhugasömum um matarsóun og næstu skref.
Skráning hér!

*Mynd frá vef Umhverfisstofnunar.

Hæfniaukning starfsfólks – Samstarfssamningur SVÞ, VR/LÍV

Hæfniaukning starfsfólks – Samstarfssamningur SVÞ, VR/LÍV

Á ráðstefnu SVÞ í mars s.l. 2023 undirrituðu formaður SVÞ, Jón Ólafur Halldórsson, formaður VR og LÍV, Ragnar Þór Ingólfsson, tímamótasamstarfssamning sem snýr að markvissri vinnu að hæfniaukningu starfsfólks í verslun og þjónustu til ársins 2030.

Samningurinn felur í sér þrjú meginmarkmið sem verða í hávegum höfð með margvíslegum aðgerðum félaganna fram til ársins 2030.

Sí og endurmenntun verði fastur hluti í menningu fyrirtækja í verslun og þjónustu. Stefnt er að því að 80% af starfsfólki fyrirtækja í verslun og þjónustu sæki sér nám sem hefur að markmiði að auka hæfni og þekkingu. Horft er til þess að námið fari fram með reglulegri sí- og endurmenntun með það að markmiði að tryggja að starfsfólk fyrirtækja í verslun og þjónustu eigi ávallt kost á því námi sem gerir þeim kleift að takast á við þau verkefni sem vinnumarkaður í örri umbreytingu gerir kröfu um.

Nýbúar á Íslandi og íslensk tunga. Sérstök áhersla verður lögð á að auka þekkingu og hæfni þess stóra hóps starfsfólks í verslunar- og þjónustufyrirtækjum sem hefur íslensku sem annað tungumál. Markmiðið er að árið 2030 búi 80% þessa hóps yfir hæfni B1 í íslensku samkvæmt viðmiðum Evrópska tungumálarammans (European Language Portfolio). – Sjá samantekt á íslenskukennslu möguleikum hjá Fjölmenningasetri Vinnumálastofnunar .

Vottanir og viðurkennd fagbréf. Stefnt er að því að verslunar- og þjónustugreinin þrói og skilgreini aðferð sem leiði af sér viðurkenningu/vottun á gefnum markmiðum samningsins. Það felur í sér að viðurkennd vottun eða fagbréf verði veitt fyrir starfsgreinar og hæfnisnám/þjálfun starfsfólks í verslun og þjónustu og að fyrirtæki fái viðurkenningu þegar 80% starfsfólks eru árlega í virkri sí- og endurmenntun. Til að framfylgja samstarfssamningi þessum var settur saman samstarfshópur á vegum SVÞ og VR/LÍV sem vinnur að aðgerðaráætlun sem styður ötullega að framgangi samningsins og bregst við með mögulegum úrbótum á vegferðinni. Tekin eru mið af þeim þremur markmiðum sem sett hafa verið fram í samningnum og hafa nú þegar verið settar niður fyrirhugaðar aðgerðir sem framkvæmdar verða á komandi vikum.

Stöðukönnun á stjórnendur innan SVÞ og félagsfólk VR í verslun og þjónustugreinum. Stöðukönnun verður á haustmánuðum send á félagsfólk og stjórnendur, þar spurt verður um aðgengi, viðhorf og þátttöku til hæfniaukningar á vinnumarkaði og verður slík könnun send út reglulega á tímabilinu. Mikilvægustu hæfniþættir nútímans og komandi ára samkvæmt WEF verða kynntir á miðlum SVÞ og VR/LÍV og nánar útlistaðir félagsfólki og stjórnendum til frekari upplýsinga.  Nánar er fjallað um hæfniþættina neðar í greininni. Upplýsingar um aðgengi og þá fjölbreytni á leiðum við að ná tökum á íslenskra tungu verða teknar saman á miðlægan grunn og þær upplýsingar öllum aðengilegar.

Sameiginlegt viðfangsefni í samfélagi fólks og fyrirtækja í verslunar-og þjónustugreinum. Með samningnum vilja VR/LÍV og SVÞ sýna að það er sameiginlegt viðfangsefni samtaka launafólks í verslunar- og þjónustugreinum og samtaka atvinnurekenda að tryggja að menntun og hæfni starfsfólks sé í takt við þarfir hverju sinni. Lesa má samstarfssamninginn í heild sinni á vef SVÞ HÉR! 

Hæfniþættir WEF 2023

World Economic Forum hefur fylgst náið með áhrifum fjórðu iðnbyltingarinnar og gefið út 10 mikilvægustu hæfniþætti á vinnumarkaði frá árinu 2016. Nýjasta skýrsla WEF kom út 30. apríl 2023 sl. og byggir á könnun og sjónarmiði starfsfólks og stjórnenda 803 fyrirtækja sem mynda heimsþverskurð atvinnurekenda og starfa þeim tengdum. Könnunin byggir á svörum um stefnur, atvinnu- og tækniþróun og áhrif þeirra á störf, færni og vinnuafl yfir tímabilið 2023-2027. Út frá niðurstöðum skýrslunnar uppfærir WEF mikilvægustu hæfniþættina fyrir komandi tímabil. Helstu niðurstöður könnunarinnar sýna fram á umbreytingu starfa og fyrirtækja og talsverð áhrif á færni launfólks þeim tengdum. Mikilvægustu framtíðarhæfniþættina 2023 má sjá á myndinni. World Economic Forum – Hæfnisþættir 2023

Mælaborðið Veltan komin í loftið!

Mælaborðið Veltan komin í loftið!

Veltan er mælaborð sem sýnir stefnur og strauma í verslun!

Rannsóknasetur verslunarinnar hefur sett í loftið mælaborð þar sem stjórnendur fyrirtækja geta fylgst með straumum og stefnum í verslun og þjónustu. Lausnin ber nafnið Veltan, en mælaborðið fylgist með kortaveltu Íslendinga sem er sett niður á flokka í verslun og þjónustu. Einnig er fylgst með þróun ferðamanna hér á landi, í hvað þeir eyða, hvaða þjóðir eyða mest og þá er fylgst náið með netverslun hérna heima og hversu miklu við eyðum í netverslun erlendis.

Rannsóknasetur verslunarinnar var stofnað árið 2004 og hefur í gegnum tíðina fylgst með neytendahegðun Íslendinga. Magnús Sigurbjörnsson, forstöðumaður RSV segir í viðtali við Morgunblaðið s.l. helgi að stofnunin hafi sett mælaborð á laggirnar 2022 en markmiðið með veltan.is sé að auka sýnileika gagnanna og gefa fyrirtækjum í verslun og þjónustu tækifæri á að fylgjast betur með kortaveltu íslendinga.

Kynntu þér málið.
Rannsóknasetur verslunarinnar er þessi misserin að að funda með fólki og fyrirtækjum og kynna möguleika.
Hægt er að bóka kynningarfund inná vefsvæði Veltunnar – SMELLTU HÉR! 

Ný­skráðir raf-fólks­bíl­ar það sem af er ári eru  40% af heild­ar­sölu fólks­bíla.

Ný­skráðir raf-fólks­bíl­ar það sem af er ári eru 40% af heild­ar­sölu fólks­bíla.

Morgunblaðið birtir í dag, 19.september 2023, viðtal við Maríu Jónu Magnússdóttur, framkvæmdastjóra BGS (Bílgreinasambandsins) þar sem m.a. kemur fram að neyt­end­ur flykkj­ast nú í bílaum­boðin til að tryggja sér raf­bíl áður en þeir hækka um ára­mót­in þegar virðis­auka­skatt­ur verður lagður á þá og hver bíll hækk­ar um 1.320.000 kr.

Í viðtalinu gagn­rýn­ir María stjórn­völd fyr­ir að hafa ekki enn sýnt á spil­in um mögu­leg­ar íviln­un­araðgerðir til mót­væg­is við álagn­ingu skatts­ins.

„Við vit­um ekki hvaða leið stjórn­völd ætla að fara,“ seg­ir María Jóna Magnús­dótt­ir. Á meðan er ekki hægt að verðleggja raf­bíla sem selja á í upp­hafi 2024 og eru jafn­vel á leiðinni til lands­ins.

Smellið hér fyrir viðtalið inná Mbl.

Morgunblaðið 19.09.2023 rafbílar rjúka út

Umhverfisverðlaun atvinnulífsins, opið fyrir umsóknir.

Umhverfisverðlaun atvinnulífsins, opið fyrir umsóknir.

Óskað eftir tilnefningum til Umhverfisverðlauna atvinnulífsins

Samtök atvinnulífsins og aðildarfélög óska eftir tilnefningum til Umhverfisverðlauna atvinnulífsins fyrir 13. október 2023.

Verðlaunin verða veitt af forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni, á Umhverfisdegi atvinnulífsins 21. nóvember í Hörpu.

Tekið er við tilnefningum* hér á meðfylgjandi umsóknarformi.
Veitt eru tvenn verðlaun; umhverfisfyrirtæki ársins og framtak ársins.

Dómnefnd velur úr tilnefningum en til að tilnefning teljist gild þurfa fyrirtæki að uppfylla sett viðmið og rökstuðningur þarf að fylgja.

Tilnefna þarf fyrirtæki sérstaklega undir hverjum flokki en einnig er hægt að tilnefna fyrirtæki fyrir báða flokka.

*Einungis er hægt að tilnefna skráð aðildarfyrirtæki Samtaka atvinnulífsins og aðildarfélaga til Umhverfisverðlauna atvinnulífsins.

Að Umhverfisdegi atvinnulífsins standa Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Samtök verslunar og þjónustu.

Sjá nánari frétt inná SA